Samfylkingarþingmaður gegn NATO
Í rúmlega sjötíu ára langri aðildarsögu Íslendinga að NATO eru dæmi um að ólíklegustu menn rjúki upp til handa og fóta og taki til við að boða úrsögn úr NATO ef þetta eða hitt gerist eða gerist ekki.
Í umræðum líðandi stundar má líkja því við að hafa viðvaranir um ofsaveður að engu að láta sem vind um eyru þjóta allar viðvaranir um hættuna af því að Íslendingar segðu skilið við Atlantshafsbandalagið (NATO). Það væri eins og að afsala sér aðstoð þeirra sem eru tilbúnir að leggja á sig erfiði og stofna eigin lífi í hættu til að bjarga öðrum. Engum sem stunda fjalla- eða jöklaferðir dettur í hug að banna björgunarsveitum að aðstoða sig þótt þeir taki óforsvaranlega áhættu. Virðist full þörf á að styrkja varnir gegn slíkum ákvörðunum og gera tillitsleysi til þeirra dýrkeyptara.
Í rúmlega sjötíu ára langri aðildarsögu Íslendinga
að NATO eru dæmi um að ólíklegustu menn rjúki upp til handa og fóta og taki til
við að boða úrsögn úr NATO ef þetta eða hitt gerist eða gerist ekki. Oftast er
þetta til heimabrúks. Menn vilja sýna að þeir séu kaldir karlar sem láti ekki
bjóða sér hitt eða þetta. Aðrir eru fastir í viðjum kalda stríðsins og hallast
af andstöðu við NATO vegna úreltra hugsjóna. Andstaða Alþýðubandalagsins og síðar
VG gegn NATO hefur skapað flokkunum margvíslegan vanda og vegur nú að rótum VG innan
frá. Að flokkurinn losi sig ekki við óværuna er dapurlegt.
Guðmundur Andri Thorsson í ræðustól alþingis. (Mynd: Fréttablaðið.)
Alþýðuflokkurinn brást aldrei í afstöðu sinni til NATO þótt innan flokksins mætti stundum greina and-NATO strauma. Samfylkingin hefur staðið að NATO og átti mikilvægan þátt í mótun þjóðaröryggisstefnunnar þar sem aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin eru grunnþættir. Í þingliði Samfylkingarinnar heyrast hins vegar efasemdaraddir um NATO-aðildina. Eftir að Soleimani, hershöfðingi Írana, var myrtur 3. janúar 2020 sagði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Facebook:
„Hins vegar fæ ég að súpa seiðið af uppátækjum Bandaríkjaforseta – og núverandi ríkisstjórn okkar Íslendinga hefur verið að treysta böndin við þetta herveldi, jafnvel búa í haginn fyrir endurkomu ameríska hersins. Það finnst mér hættuspil; við eigum að fjarlægja okkur bandarískum hagsmunum eins og við mögulega getum, jafnvel að íhuga úrsögn úr Nató meðan Bandaríkjamenn eru þar svo fyrirferðarmiklir.“
Um þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins í dag (9. janúar):
„Þingmaður Samfylkingar hafði orð á því á dögunum að Ísland ætti jafnvel að íhuga úrsögn úr NATO meðan Bandaríkjamenn væru þar svo fyrirferðarmiklir. Ekki er ástæða til að taka undir þau orð. Slíkt væri alls ekki gæfuspor fyrir Ísland. Einangrunarhyggja dugar ekki. Ljóst er að flestum NATO-þjóðum hugnast ekki nýjasta útspil Bandaríkjaforseta og vilja halda aftur af honum, en um leið er ljóst að það verður ærið verk. Íslendingar eiga ekki að flýja þann félagsskap heldur taka þátt í því að standa vaktina og sýna ábyrgð.“
Hér skal tekið undir orð Kolbrúnar. Afstaða Guðmundar Andra Thorssonar er nýjasta dæmið um að atburðir á alþjóðavettvangi eru nýttir til að vega að öryggistryggingu Íslendinga sem felst í NATO-aðildinni. Stóra samhengið í öryggismálum víkur fyrir stundaruppnámi sem styðst ekki við nein skynsamleg rök.