19.8.2022 10:00

Samfylking úti í mýri

Það er klaufalegt hjá Hjálmari Sveinssyni að ætla að nota flugvallarmálið til að draga athygli frá sviknum loforðum Samfylkingarinnar.

Þegar þrengir að meirihluta borgarstjórnar í leikskólamálum og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri velur þá gamalkunnu leið sína að láta ekki sjá sig verður framsóknarmaðurinn og staðgengillinn Einar Þorsteinsson sífellt vandræðalegri bæði í málflutningi og á blaðaljósmyndum með barnafjölskyldum sem mótmæla í ráðhúsinu.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og hugmyndafræðingur í skipulagsmálum, valdi þann kost að ræða annað en leikskóla. Hann hóf umræður um eilífðarmálið: Vatnsmýrina og brottför flugvallarins þaðan. Brottförin á að opna gullnámu fyrir borgina, verktakar greiði milljarða fyrir mýrina og jafnvel stærra svæði, sumir segja líklegt að Tjörnin þorni þegar grafið verður niður á fast í mýrinni.

IMG_5295Einkaþotum fjölgaði í Vatnsmýrinni í sumar.

Kjarninn í grein Hjálmars (í Fréttablaðinu 17. ágúst) var að beðið hefði verið allt of lengi eftir að flugvöllurinn færi og gaf hann til kynna að borgaryfirvöld hefðu verið á móti flugvelli í Vatnsmýrinni fyrir 82 árum. Hilmar Þór Björnsson arkitekt leiðréttir þetta í færslu á Facebook í dag (19. ágúst).

Hilmar Þór segir rétt að halda því til haga að stjórnvöld í Reykjavík í samstarfi við ríkið voru búin að ákveða og gera uppdrætti að flugvelli í Vatnsmýrinni löngu fyrir stríð og líklega hafi Bretar ákveðið vegna þeirrar forvinnu að leggja flugvöllinn einmitt þar, í Vatnsmýrinni. Hilmar Þór segir líka ástæðu til þess að minna á að Bjarni Benediktsson, þáv. borgarstjóri, mótmælti því að Bretar legðu flugvöllinn vegna þess af honum stafaði hætta fyrir borgarbúa vegna stríðsins. „Hann mótmælti flugvellinum ekki af skipulagsástæðum enda var það stefna bæjarins að byggja flugvöllinn einmitt þarna. Loftárásir Þjóðverja á Bretlandseyjum voru nýbyrjaðar og beindust þær einkum að flugvöllum og höfnum. Þessvegna vildi Bjarni ekki hafa stríðsmannvirki svona nálægt miðborginni,“ segir Hilmar Þór.

Færsluna birtir arkitektinn sem athugasemd við langa færslu sem Þorkell Sigurlaugsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, birti í gær á Facebook í tilefni af grein Hjálmars Sveinssonar. Þorkell skrifar einnig grein um Reykjavíkurflugvöll í Morgunblaðið í dag og segir hann verða þar sem hann er a.m.k næstu 20 ár eða lengur.

Það er klaufalegt hjá Hjálmari Sveinssyni að ætla að nota flugvallarmálið til að draga athygli frá sviknum loforðum Samfylkingarinnar.

Þorkell Sigurlaugsson rifjar til dæmis upp að árið 2013 þegar Jón Gnarr borgarstjóri var staðgengill Dags B. var það yfirlýst markmið borgaryfirvalda að Reykjavíkurflugvelli yrði „endanlega lokað“ árið 2024. Átti samkomulag borgarstjóra við Ögmund Jónasson, þáv. innanríkisráðherra, að tryggja þetta.

Yfirlýsingin reyndist auðvitað innantóm orð, meira að segja Dagur B. veifaði ekki þessu ártali fyrir kosningarnar í vor eins og hann veifaði óefndum kosningaloforðunum allt frá árinu 2006.

Það er til marks um lélegan málstað Samfylkingarinnar í borgarstjórn að hugmyndafræðingur hennar skuli vilja rifja upp þessa sorgarsögu alla til að draga athygli frá leikskólahneykslinu.