6.5.2018 9:32

Samfylking og VG „millistjórnendur nýfrjálshyggjunnar“

Xi Jinping, forseti Kína, hyllti Marx í ræðu föstudaginn 4. maí sem „mesta hugsuð nútímans“.

Þess var minnst við hátíðlega athöfn í Trier í Þýskalandi laugardaginn 5. maí að 200 ár voru liðin frá fæðingu frægasta sonar borgarinnar, Karl Marx. Af því tilefni var fyrsta styttan af honum í borginni afhjúpuð. Hún er 4,4 m há, gerð af kínverska myndhöggvaranum Wu Weishan og er gjöf Kínverja til borgarinnar.

Xi Jinping, forseti Kína, hyllti Marx í ræðu föstudaginn 4. maí sem „mesta hugsuð nútímans“. Hann sagði Kínverja njóta visku Marx og Friedrichs Engels höfunda Kommúnistaávarpsins.

Kínverska styttan af Karli Marx í Trier.

Dieter Dombrowski, forseti Sambands fórnarlamba harðstjórnar kommúnista, sagði: „Við mótmælum harðlega að stytta af Marx skuli afhjúpuð og teljum fráleitt að Marxismi sé hafinn til skýjanna.“ Hann sagði ákvörðun borgarstjórnar Trier um að þiggja gjöfina „óvirðingu og ómannúðlega“ gagnvart öllum sem hefðu þjáðst undir stjórn kommúnista.

Á Vesturlöndum kjósa þeir sem tileinka sér kenningar Marx að minnast ekki á kommúnisma. Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörin formaður Eflingar, birti grein í Kvennablaðinu á afmælisdegi Karls Marx undir fyrirsögninni: Hið hefðbundna vinstri hefur lit sínum glatað. Þar boðar hún stéttaátök í anda Marx og segir í greinarlok:

„Hið hefðbundna vinstri hefur ekki aðeins hafnað því sem áður var grundvöllur tilveru þess, að vera framvarðasveit hinna vinnandi stétta, heldur hefur jafnframt algjörlega gefið upp á bátinn allar hugmyndir um að fá verkafólk sjálft til að stjórna og stýra samfélaginu. Hið hefðbundna vinstri er aðeins millistjórnandi nýfrjálshyggjunnar; stjórnar þeim sem eru lægra sett í stigveldinu fyrir hönd hinna raunverulegu stjóra. Hið hefðbundna vinstri er í samtímanum aðeins nýfrjálshyggja með manneskjulegu yfirbragði.“

Sólveig Anna skipar sjötta sæti á Reykjavíkurlista Sósíalistaflokks Gunnars Smára Egilssonar var handlangari auðmanna fyrir hrun. Hann hefur átt í útistöðum við launamenn vegna uppgjörsmála gjaldþrota fyrirtækja.