3.7.2021 9:33

Samfylking milli steins og sleggju

Vegna innanmeina og skorts á stefnu glímir Samfylkingin við tilvistarvanda. Forysta flokksins kýs að fylgja Pírötum í stjórnarskrármálinu og styðjast við Viðreisn í ESB-málum.

Vegna innanmeina og skorts á stefnu glímir Samfylkingin við tilvistarvanda. Forysta flokksins kýs að fylgja Pírötum í stjórnarskrármálinu og styðjast við Viðreisn í ESB-málum.

Nú þegar skoðanakannanir sýna að Píratar ná forystu sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn tekur Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem nú skipar annað sæti flokksins í SV-kjördæmi til máls á Kjarnanum og gagnrýnir stjórnarflokkana. Af gagnrýni hans má ráða hvaða mál Samfylkingin telur að bera eigi hæst í kosningabaráttunni. Hann segir:

„Sjálfstæðismenn tortryggja kennara, Samkeppniseftirlitið og starfsfólk Ríkisútvarpsins og vilja hafa hönd í bagga og eftirlit með störfum þeirra...“

Að Samfylkingin telji sér skylt að standa pólitískan vörð um samkeppniseftirlitið og ríkisútvarpið ætti ekki að koma neinum á óvart. Samkeppniseftirlitið lætur sig ekki heldur varða að með þeirri skipan sem ríkir er ríkisútvarpið að drepa alla samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Að samkeppniseftirlitið sæti gagnrýni í ríkisútvarpinu er óþekkt. Hitt að sjálfstæðismenn tortryggi kennara er órökstutt. Með þessum orðum vill Guðmundur Andri ef til vill beina athygli frá því hvernig Samfylkingin stendur að rekstri leik- og grunnskóla í Reykjavík. Þaðan berast stöðugar vandræðafréttir.

Guðmundur Andri víkur að vinstri grænum með þessum orðum:

„Við sjáum biðlistastefnu ríkisstjórnarinnar þó skýrast í heilbrigðismálum þar sem þjáðir sjúklingar mega bíða og bíða og bíða eftir því að komast í nauðsynlegar aðgerðir; þar sem konur þurfa að bíða eftir niðurstöðum úr krabbameinsrannsókn eftir afar illa undirbúna flutninga þessara rannsókna frá Krabbameinsfélaginu til Landspítalans – miðstýringaráráttan – og það eru meira að segja biðlistar barna og unglinga eftir bráðnauðsynlegri þjónustu hjá Barna- og unglingageðdeild.“

Það er holur hljómur í þessari gagnrýni frá þingmanni Samfylkingarinnar? Hvar hefur hann eða flokkur hans gengið til liðs við þá sem benda á skynsamlega leið út úr þessum vanda: Að draga úr miðstýringu ríkisins í þessum málaflokki og ýta undir einkaframtak?

AlthingiÁ það hefur verið bent að með stefnu sinni í stjórnarskrármálinu og fylgispekt við Pírata í því fremji Samfylkingin harakíri sem jafnaðarmannaflokkur, það sé grunnþáttur í stefnu sósíal-demókrata að virða lýðræði og þingræði, hafna popúlisma og tilraunum til að hrifsa völd frá réttkjörnum stjórnvöldum. Guðmundur Andri hafnar þessari skoðun þegar hann gagnrýnir ríkisstjórnina í grein sinni fyrir „að fara ekki að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrámálinu“. Krafa um þetta er til marks um algjört þekkingar- eða virðingarleysi vegna alls þess sem gerst hefur í stjórnarskrármálinu frá október 2012.

Helsta von þingmanns Samfylkingarinnar er aðild að ESB og brottkast krónunnar. Bónorð til Viðreisnar.

Samfylking er flokkur milli steins og sleggju: Pírata og Viðreisnar.