30.1.2025 10:23

Samfylking í húsnæðishraki

Það er hreinn og klár fyrirsláttur hjá Samfylkingunni að þingflokkur hennar rúmist ekki á öðrum stað en í þessu fundarherbergi. Visslega kann krafan að stafa af reynsluleysi formanns flokksins eða formanns þingflokksins.

Þingflokkur Samfylkingarinnar sem eignar sér verðandi forseta alþingis og vill að Þórunn Sveinbjarnardóttir verði kjörin í þann virðulega stól sem sameiningartákn allra þingmanna hefur ákveðið að stofna til deilna innan þingsins um fundarherbergi þingflokka.

Þvert á allar meginreglur sem gilda um afnot af fundarherbergjum í húsakynnum alþingis setur Samfylkingin sig á háan hest af því að hún er með 15 þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn 14 og heimtar fundarherbergið sem sjálfstæðismenn hafa notað í 84 ár.

Það er hreinn og klár fyrirsláttur hjá Samfylkingunni að þingflokkur hennar rúmist ekki á öðrum stað en í þessu fundarherbergi. Visslega kann krafan að stafa af reynsluleysi formanns flokksins eða formanns þingflokksins. Ekki bætir líklega úr skák að til starfa sem framkvæmdastjóri þingflokksins er kominn Þórður Snær Júlíusson sem bauð sig fram til þings en neyddist til að falla frá þingsetu vegna frásagna af dólgslegum og yfirlætisfullum skrifum hans á árum áður. Sé krafan ekki reist á barnaskap stafar hún einmitt af stórlæti og yfirgangssemi.

Nú kemur í ljós hvort verðandi þingforseti sé þess trausts verð sem einkennir farsæla forvera hennar eða hvort Þórunn Sveinbjarnardóttir fellur á prófinu áður en hún nær kjöri.

1545456Þingflokksherbergi sjálfstæðismanna í 84 ár (mynd: mbl.is).

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (30. janúar) birtist réttmæt gagnrýni á þá furðulegu ákvörðun Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra að láta hjá líða að sækja óformlegan fund norrænu forsætisráðherranna og forseta Finnlands í Kaupmannahöfn sunnudaginn 26. janúar þar sem rætt var um brýn öryggismál þjóðanna og yfirlýsingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Í leiðaranum segir meðal annars:

„Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag segir forsætisráðherra að sér hafi verið gert viðvart um gestaboð Mette með skömmum fyrirvara, en í viðtali við Rúv. sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir verðandi þingforseti fyrirvarann svo skamman að kalla mætti „eftiráboð“ en ekki hefði þótt „svara kostnaði að skella sér til Køben“! Þetta ber vott um meiri léttúð en viðeigandi er um slík alvörumál og hagsmuni Íslands.“

Undir þessa skoðun blaðsins skal tekið. Norrænu forystumennirnir hittust á fundi í danska forsætisráðuneytinu síðdegis sunnudaginn 26. janúar og vissu allir um fundinn með góðum fyrirvara. Þetta kemur meðal annars fram í fréttum um ferð Finnlandsforseta.

Fjarvera Kristrúnar Frostadóttur vekur ekki umræður hér vegna þess að Mette Frederiksen tók síðbúna ákvörðun um að bjóða fundarmönnum til kvöldverðar á heimili sínu heldur vegna þess hve aulalega forsætisráðherra og verðandi forseti alþingis reyna að afsaka fjarveruna.

Nú birtist sama dómgreindarleysið innan alþingis þegar Samfylkingin ákveður að stofna til deilna um afnot af fundarherbergi!

Í hátíðarskyni talar samfylkingarforystan oft um sig sem andstæðing sérhagsmuna. Verður gæsla þeirra augljósari en í herbergjakröfu flokksins?