Samfylking gegn stórútgerð
Oddný býður sem sagt betur en Logi, hann vill Sjálfstæðisflokkinn feigan, Oddný vill einnig drepa stórútgerðir á einu bretti.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fer rúm 60 ár aftur í tímann og tekur upp stefnumál Hræðslubandalagsins svonefnda, kosningabandalags Alþýðuflokks og Framsóknarflokks frá 1956 um að útiloka verði Sjálfstæðisflokkinn frá landstjórninni.
Vinstri stjórnin sem þá kom til sögunnar með samstarfi hræðslubandalagsflokkanna við Alþýðubandalagið entist til 1958. Frá árinu 1959 sat Alþýðuflokkurinn síðan í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, viðreisnarstjórninni, til ársins 1971.
Samfylkingin (arftaki Alþýðuflokksins) og VG (arftaki Alþýðubandalagsins) mynduðu minnihlutastjórn 1. febrúar 2009 með stuðningi Framsóknarflokksins undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og eftir þingkosningar vorið 2009 mynduðu Samfylking og VG fyrstu „hreinu“ vinstri stjórnina, það er án Framsóknarflokksins.
Þrjú meginmál „hreinu“ vinstri stjórnarinnar urðu að engu: stjórnarskrármálið, ESB-málið og aðförin að kvótakerfinu og stórútgerðum. Samfylking og VG fengu hrikalega útreið í kosningunum 2013 og í kosningum 2016 var Samfylkingin næstum orðin að engu undir formennsku Oddnýjar Harðardóttur. Logi Einarsson á Akureyri náði einn kjöri á þing fyrir flokkinn, dró nokkra þingmenn með sér og var kjörinn flokksformaður. Nú hverfur hann sem sagt rúm 60 ár aftur í tímann í leit að máli sem sameinar flokk sinn fyrir kosningarnar í september 2021, hann elur á andúð við Sjálfstæðisflokkinn en tók upp stefnu pírata í stjórnarskrármálinu.
Oddný Harðardóttir, núv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, rær á sömu mið og Jóhanna Sigurðardóttir á árunum 2009 til 2013 og ætlar að slá sér upp á óvild í garð stórútgerða.
Í grein í Morgunblaðinu í dag (27. apríl) segir Oddný að stór útgerðarfyrirtæki hér á landi séu í raun rekin sameiginlega og hafi samráð um veiðar, vinnslu og sölu afurða. Hún dregur upp þá mynd að þjóðin standi frammi fyrir einu stóru útgerðarfyrirtæki sem vinni ekki aðeins gegn hag hennar með kjarnastarfsemi sinni, heldur skaði þjóðina út á við og hefti allar umræður innan lands vegna ítaka í fjölmiðlum og gagnrýni á ríkisútvarpið.
Oddný býður sem sagt betur en Logi, hann vill Sjálfstæðisflokkinn feigan, Oddný vill einnig drepa stórútgerðir á einu bretti.
Bandamaður Oddnýjar er nýr frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, Jóhann Páll Jóhannsson sem segir að kerfið sem var fullsmíðað af Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki um 1990 geri stórúrgerðum „kleift að raka til sín arðinum af fiskveiðiauðlindinni og nota hann til að öðlast æ meiri ítök í íslensku viðskiptalífi“.
Bæði Oddný og Jóhann Páll telja það styrkja málstað sinn að sammælast um stuðning við málstað Helga Seljans, fréttamanns ríkisútvarpsins, í átökum hans og Samherja.
ESB-aðildin er leynivopn Samfylkingarinnar gegn stórútgerðinni, Brusselvaldið gengi að henni dauðri, þar lýtur flokkurinn Viðreisn fram að kosningum.