16.8.2022 9:37

Samflotið innan ASÍ

Af þessum orðum má ráða að verði ekki tekin ákvörðun um samflot félaga innan ASÍ skapist ný staða við gerð kjarasamninga.

Eftir að Drífa Snædal hraktist úr forsetastóli ASÍ stendur verkalýðshreyfingin frammi fyrir margvíslegum verkefnum sem leysa verður á næstu vikum til að hún sé sem heild marktækur viðmælandi í komandi kjaraviðræðum. Tvennt ber þó hæst: (1) að kjósa nýjan forseta á ASÍ-þinginu í október og (2) að taka ákvörðun um aðferð í kjaraviðræðunum, hvort stefna skuli að víðtæku samfloti ASÍ-félaga í viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA).

Þríeykið sem beitti sér gegn Drífu hefur ekki kynnt neinn frambjóðanda í forsetastólinn. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags, segist þó ekki ætla að gefa kost á sér sem forseti. Ætla má að Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, yrði ekki óljúft að setjast í stólinn. Þriðji forystumaðurinn í þríeykinu, Vilhjálmur Birgisson á Akranesi, náði formennsku í Starfsgreinasambandinu (SGS) í mars 2022. Ef til vill leit hann aðeins á það sem stökkpall í ASÍ-forsetastólinn.

960274Frá 1. maí kröfugöngu (mynd:mbl.is).

Innan ASÍ eru síður en svo allir sáttir við þríeykið, vinnubrögð þess og framkomu gegn Drífu. Á hinn bóginn má spryja hver sé rödd þríeykis-andstæðinga. Af örðum Drífu við afsögn hennar má draga þá ályktun að sá sem lendir upp á kant við þríeykið þurfi ekki aðeins að hafa harðan skráp gagnvart fúkyrðum og upphrópunum heldur einnig að vera undir það búinn að veist sé að honum með öskrum og ógnandi líkamstjáningu.

Rætt var við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á forsíðu Morgunblaðsins mánudaginn 15. ágúst. Hann sagði að væringar innan verkalýðshreyfingarinnar styrktu hvorki stöðu ASÍ né viðsemjenda þeirra. Sagðist hann óska eftir vinnufriði og að Alþýðusambandið næði saman um þau meginverkefni sem lytu að gerð kjarasamnings. Halldór Benjamín minnti á að ASÍ færi að þessu sinni ekki með samningsumboð fyrir aðildarfélög sín í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Hins vegar væru þau mikilvæg, sér í lagi þegar það kæmi að þríhliða samtali við stjórnvöld sem ættu sér væntanlega sér stað á lokametrum kjarasamninganna þegar þeir yrðu undirritaðir. „Við megum aldrei gleyma, þrátt fyrir allan bölmóðinn, að kjarasamningar eru alltaf undirritaðir að lokum,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Í þessum orðum bendir Halldór Benjamín á gildi samflots félaga innan ASÍ og undir nafni sambandsins þegar að lyktum samningaviðræðna kemur.

Í grein um kjaraviðræður og samninga sem Halldór Benjamín og Hannes G. Sigurðsson skrifa á vefsíðu SA, www.sa.is, segir að gangi allt að óskum séu kjarasamningar samþykktir milli SA og stéttarfélaga samflots aðildarfélaga ASÍ með um helming félagsmanna stéttarfélaga í landinu að baki sér. Slíkri kjarasátt fylgi jafnan yfirlýsing ríkisstjórnar um framgang ýmissa áherslumála samningsaðila. Þegar svo sé komið eigi hátt í 100 stéttarfélög eftir að ljúka 280 samningum fyrir hinn helming launamannanna 180 þúsund. Yfirlýsingar ríkisstjórna séu léttvægar í þeim viðræðum.

Af þessum orðum má ráða að verði ekki tekin ákvörðun um samflot félaga innan ASÍ skapist ný staða við gerð kjarasamninga. Sólveig Anna Jónsdóttir vill ráða, hennar gróði verður að vera annars tap. Ólíklegt að hún vilji nokkuð samflot.