Samflotið í höfn
Þetta samflot liggur nú fyrir og ríkisstjórnin boðar aðgerðir. Allt er þetta eftir bókinni og einnig að Sólveig Anna Jónsdóttir er ein á báti.
Þegar Drífa Snædal sagði sér embætti forseta ASÍ fyrir fjórum mánuðum og vék fyrir þeim Sólveigu Önnu Jónsdóttur, Eflingu, Ragnari Þór Ingólfssyni, VR, og Vilhjálmi Birgissyni, Akranesi, varð uppnám innan ASÍ sem talið var að kynni að spilla fyrir gerð kjarasamninga nú í nóvember og desember – samningar runnu út 1. nóvember 2022.
Ragnar Þór bauð sig fram til forseta ASÍ í aðdraganda þings sambandsins fyrir tveimur mánuðum með Sólveigu Önnu og Vilhjálm sem varaforsetaefni. Á þinginu sjálfu þótti Ragnari Þór stuðningur við sig ekki nægur og hann dró sig í hlé ásamt varaforsetaefnunum. Þinginu lauk án þess að gengið yrði til forsetakjörs og sat Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, áfram sem starfandi forseti til þings sem á að boða á næsta ári.
Var því spáð að þetta vandræðaástand mundi enn auka á vanda við gerð kjarasamninga að þessu sinni. Vilhjálmur Birgisson braut hins vegar ísinn með því að ræða við Samtök atvinnulífsins (SA) og ljúka gerð kjarasamnings fyrir 17 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins (SGS). Samningurinn var undirritaður laugardaginn 3. desember og gildir hann frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Ber hann fyrirsögnina: Brú að bættum lífskjörum.
Aðalsteinn Leifssson ríkissáttasemjari (t.v.) og samningamenn ganga frá kjarasamningi sem tryggir samflotið – 12. desember 2022 (mynd;mbl.is).
Sólveig Anna Jónsdóttir réðst á Vilhjálm vegna forystu hans við gerð samnings. Hann sakaði Sólveigu Önnu um að reka rýting í bakið á sér. Hún hélt að sér höndum til að árétta eigin sérstöðu en Ragnar Þór tók höndum saman við Kristján Þórð og saman rituðu þeir undir kjarasamning við SA klukkan 13.00 mánudaginn 12. desember. Sunnudaginn og aðfaranótt mánudags sátu samningsaðilar á 20 stunda löngum fundir undir stjórn Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.
Í samningnum segir að almennar launahækkanir verða 6,75% og taka gildi 1. nóvember 2022, en hámarkshækkun er þó 66 þúsund á mánuði. Hagtaxtarauki 2022 fellur niður samhliða. Samningurinn gildir til 31. janúar 2024.
Í grein um kjaraviðræður og samninga sem Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA og Hannes G. Sigurðsson, fyrrv. aðstoðarframkvæmdastjóri SA, skrifuðu á vefsíðu SA fyrr á árinu segir að gangi allt að óskum í kjaraviðræðum séu kjarasamningar samþykktir milli SA og stéttarfélaga samflots aðildarfélaga ASÍ með um helming félagsmanna stéttarfélaga í landinu að baki sér. Slíkri kjarasátt fylgi jafnan yfirlýsing ríkisstjórnar um framgang ýmissa áherslumála samningsaðila.
Þetta samflot liggur nú fyrir og ríkisstjórnin boðar aðgerðir. Allt er þetta eftir bókinni og einnig að Sólveig Anna Jónsdóttir er ein á báti með Eflingu án samnings. Eins og jafnana reynir hún vafalaust að koma illu til leiðar.