19.9.2025 10:12

Sameinuð gegn EES-samstarfi

Sigmundur Davíð gengur þarna þeirra erinda að gera EES-samninginn tortryggilegan og styður þannig ESB-málstað Þorgerðar Katrínar. Pólitíkin býr stundum til furðulega bandamenn.

Þingmenn eru enn einu sinni teknir til við að ræða um nauðsynlegar breytingar á lögum um EES-samninginn vegna túlkunar dómstóla á 3. grein hans. Túlkunin þrengir rétt þeirra sem lúta lögsögu íslenskra dómstóla samkvæmt EES-samningnum og fjórfrelsinu sem hann skapar.

Þetta frumvarp hefur ekkert með fullveldi Íslands að gera, breytir ekki þjóðréttarlegum skuldbindingum á neinn hátt, raskar í engu þeirri staðreynd að aðild að EES-samstarfinu fellur að stjórnarskránni. Það eru í raun furðuleg mistök að kenna málið við bókun 35. Málið snýst um íslensk lög sett af alþingi, lög sem þingið getur breytt hvenær sem er.

Að segja frumvarpið lið í aðildarferli að ESB er einungis til þess fallið að rangfæra efni þess. Að spinna einhverja sögu um tilurð ákvæðisins fyrir rúmum 30 árum er í engu samræmi við umræður um EES-lögin á þingi. Þingmönnum var vel ljóst að þungamiðja EES-samningsins var aðild Íslendinga að sameiginlega evrópska markaðnum. Í ljós hefur komið, vegna túlkunar dómstóla á 3. gr. EES-laganna, að Íslendingar njóta þessa réttar ekki til fulls.

Er allt sjónarspilið sem sett er á svið til að sporna gegn þessari leiðréttingu líklega sprottið af andúð á EES-samstarfinu. Önnur rökrétt skýring finnst ekki. Hvers vegna ganga andófsmennirnir ekki hreint til verks og krefjast úrsagnar úr EES?

Af hálfu sumra er talið vænlegt að alþingismenn láti þetta mál liggja og beðið verði eftir því að EFTA-dómstóllinn taki málið fyrir. Íslenska ríkið verjist gagnrýni eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir dómstólnum í Lúxemborg.

Vissulega má veðja á að EFTA-dómstóllinn sýkni íslenska ríkið, þótt ólíklegt sé.

Af hverju eiga þingmenn að afsala sér valdinu til lagasetningar í þessu máli? Að slíkt framsal sé ákveðið með fullveldið á vörunum er dapurlegt svo að ekki sé meira sagt.

Screenshot-2025-09-19-at-11.09.51Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (samsett mynd: mbl.is).

Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna úr öllum flokkum, nema Miðflokknum, styður breytinguna á EES-lögunum. Vilji miðflokksmenn róta upp jarðvegi til að auðvelda ESB-aðildarsinnum að hallamæla EES-samstarfinu er málþóf Miðflokksins um breytinguna á EES-lögunum kjörin leið til þess.

Í frásögn af fyrstu umræðu um þetta margendurflutta mál á þingi fimmtudaginn 18. september segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telji frumvarpið vera hluta af vegferð utanríkisráðherra Viðreisnar með Ísland í ESB. Bókun 35 við EES-samninginn sé ein af þeim hindrunum sem þurfi að ryðja úr vegi á þeirri vegferð.

Þessi skoðun er úr lausu lofti gripin. ESB er örugglega sama þegar íslenska ríkið brýtur á borgurum sínum við framkvæmd EES-samningsins. Sigmundur Davíð gengur þarna þeirra erinda að gera EES-samninginn tortryggilegan og styður þannig ESB-málstað Þorgerðar Katrínar. Pólitíkin býr stundum til furðulega bandamenn.

Hæstiréttur Íslands hefur ákveðið flýtimeðferð á máli sem snýst um hvort íslenska ríkið hafi skapað sér skyldu til greiðslu skaðabóta vegna réttindaskerðingarinnar á grunni 3. gr. EES-laganna.