4.10.2020 10:29

Sameinað Þýskaland í 30 ár

Á 75 árum hefur Evrópuhugsjónin orðið svo rótgróin meðal þýskra ráðamanna að skilin milli hennar og ótrúlegs árangurs þýsku þjóðarinnar verða ekki dregin.

Þess var minnst í Þýskalandi og víðar í gær (3. október) að 30 ár voru liðin frá sameiningu Þýskalands. Eftir síðari heimsstyrjöldina skiptist Þýskalands milli kommúníska alþýðulýðveldisins í austri og lýðræðislega sambandslýðveldisins í vestri. Þjóðin og landið var þannig skipt í 40 ár og lengstan hluta þess tíma með Berlínarmúrnum alræmda sem kommúnistar reistu í ágúst 1961 til að loka þegna sína inni.

Eftir að Berlínarmúrinn féll 9. nóvember 1989 leið ekki á löngu þar til þýska þjóðin sameinaðist að nýju.

Þremur vikum eftir fall múrsins kynnti Helmut Kohl, kanslari Vestur-Þýskalands, áætlun í 10 liðum um sameiningu lands og þjóðar. Átti að taka allt að einum áratug að framkvæma áætlunina.

Tímaskynið var alrangt. Innan við ár leið frá því að Kohl kynnti áform sín þar til þjóðin sameinaðist að nýju. Sáttmálinn um endursameiningu Þýskalands gekk í gildi 3. október 1990. Þýskaland varð opinberlega eitt sambandsríki.

Síðan hefur 3. október verið þjóðhátíðardagur Þýskalands.

54945800_303Eftir síðari heimsstyrjöldinni ávann Vestur-Þýskaland sér traust að nýju gagnvart vestrænu lýðræðisþjóðunum með góðum stjórnarháttum og skynsamlegum ákvörðunum í efnahagsmálum. Í stað þýskra áherslna komu evrópskar. Þýskir og franskir ráðamenn sömdu um Kola- og stálsambandið og grófu stríðsaxirnar. Af þessu samstarfi spratt síðan Evrópusambandið.

Á 75 árum hefur Evrópuhugsjónin orðið svo rótgróin meðal þýskra ráðamanna að skilin milli hennar og ótrúlegs árangurs þýsku þjóðarinnar verða ekki dregin.

Sameining Þýskalands er mikilvægur liður í heimssögulegum breytingum. Hvert þær leiða er meðal annars óljósara en ella vegna þess hve þýskir ráðamenn láta lítið fyrir sér fara í deilum utan eigin landamæra.

Þeir beita sér ekki af þunga fyrir samkomulagi um markvissa utanríkisstefnu á evrópskum vettvangi eins og sést núna á langdregnum umræðum þar um viðbrögð við kosningasvindli og ofríkisstjórn Lukasjenkos í Hvíta-Rússlandi.

Þá reynist einnig þrautin þyngri að hemja Erdogan Tyrklandsforseta sem náði ógnartaki á Þjóðverjum og ESB með því að stjórna straumi farand- og flóttafólks um land sitt. Hann reynir nú að koma ár sinni fyrir borð í Líbíu þaðan sem þúsundir vilja komast ólöglega yfir Miðjarðarhaf til Evrópu.

Vegna þess hve Þjóðverjar og ESB fara sér hægt út á við í utanríkis- og öryggismálum lætur Emmanuel Macron Frakklandsforseti æ meira að sér kveða t.d. gegn Erdogan og Lukasjenko. Frumkvæði hans er allt annað en hægagangur Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Frá 2005 hefur Merkel átt síðasta orðið í stjórn Þýskalands og innan ESB. Hún ætlar að hætta í kosningunum 2021. Næsta ár verður átakaár í þýskum stjórnmálum – þungamiðjunni innan Evrópusambandsins.