Saltfiskur í glugga
Portúgal: Ferð til Évora, steinhringur, saltfiskur í glugga og bjórturnar.
Bekkjarferð MR64 hélt áfram í Portúgal fimmtudaginn 8. september með ferð til Évora, höfuðstaðar Alentjo-héraðs um 120 km fyrir suðaustan Lissabon í áttina að Spáni. Frá Atlantshafsströnd Portúgals að Spáni eru 270 km.
Við skoðuðum miðhluta borgarinnar þar sem meðal annars eru rústir af rómönssku hofi við hlið dómkirkjunnar frá 12. öld. Þá er þarna einnig kirkjan Igreja de São Francisco þar sem er að finna beinakapellu. Á leiðinni til Évora heimsóttum við Almendres Cromlech. Steinhringurinn þar er talinn sá elsti í Evrópu, jafnvel eldri en Stonehenge á Englandi.
Myndirnar tala sínu máli:
Steinarnir í Almendres Cromlech eru aðfluttir fyrir mörgum öldum en fundust fyrir nokkrum áratugum. Þeim var þá raðað eins og þeir eru núna.
Rústir rómverska hofsins gnæfa efst á bæjarhæðinni í Évora.
Úr beinakapellunni.
Verðmætum korki er flett af trjánum. Tölustafurinn 2 sýnir að flett var af þessu tré í ár.
Frá Lissabon:
Í helstu göngugötunni í Lissabon hengu þessi saltfiskflök í glugga fiskbúðar.
Þegar betur var að gáð blasti við íslenskur framleiðslustimpill. Kemur það heim og saman við orð þjónsins sem sagði besta þorskinn koma frá Íslandi.
Setjist bjórþyrstir menn á veitingastað í Lissabon geta þeir fengið drykkinn afgreiddan í svona turnum og dælt sjálfir í glasið.