21.7.2019 10:27

Saga garða kynnt

Í fyrirlestri Einars var áréttað hve einstakt framtak Guðbjargar í Múlakoti var en garður hennar varð síðan að skemmtigarði á sumrin.

Í gær (20. júlí) flutti Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt fyrirlestur hjá okkur í Hlöðunni að Kvoslæk um efnið konan og garðurinn. Tengdum við það átakinu sem gert hefur verið í Múlakoti við að endurreisa Guðbjargargarð þar.

Guðbjörg Þorleifsdóttir hóf garðrækt í Múlakoti 1897. Í erindi Einars lýsti hann því vel að undir lok 19. aldar hófu menn hér gerð garða til annars en ræktunar grænmetis.

IMG_1729Úr Guðbjargargarð í Múlakoti 20. júlí 2019.

Árið 1893 kom til dæmis fram tillaga á alþingi um skipulag lóðar og garðyrkju við Alþingishúsið. Urðu miklar umræður um tillöguna á þinginu og miðluðu þingmenn þar af reynslu sinni af garðyrkju, t.d. Árni Thorsteinson landfógeti og forseti efri deildar. Landfógetagarðurinn (Hressingarskála­garðurinn) er kenndur við hann.

Alþingi samþykkti að lokum að verja 1.500 krónum til framkvæmda í garðinum og fól þingforseti Tryggva Gunnarssyni að sjá um framkvæmdir. Tryggvi var smiður að mennt og lærði einnig búvísindi á Norðurlöndum og brá Einar upp grunnteikningu af skipulagi garðsins sem talin er eftir Tryggva. Garðurinn er enn nánast óbreyttur frá upphaflegu skipulagi og er Tryggvi Gunnarsson grafinn í honum.

IMG_1725Einar E. Sæmundsen flytur fyrirlestur sinn í Hlöðunni að Kvoslæk.

Einar er höfundur bókarinnar Að búa til ofurlítinn skemmtigarð sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út undir lok síðasta árs. Bókin er einstakt yfirlitsverk um sögu og þróun íslenskrar garðhönnunar eða landslagsarkitektúrs. Heiti hennar er tilvitnun í ræðu á alþingi þegar gerð garðsins við þinghúsið var til umræðu.

Í fyrirlestri Einars var áréttað hve einstakt framtak Guðbjargar í Múlakoti var en garður hennar varð síðan að skemmtigarði á sumrin þegar margir sóttu í Múlakot til að njóta hvíldar og fegurðarinnar í garðinum skammt frá Markarfljóti og Eyjafjallajökli.

Sagði Einar að kalla mætti Guðbjargargarð annan tveggja raunverulegra skemmtigarða á landinu frá því um aldamótin hinn er Landfógetagarður Árna Thorsteinssonar við Hressingarskálann í Austurstræti í Reykjavík.

Fyrirlestur Einars var fjölsóttur. Blíðviðri var allan daginn en eins og spáð var rigndi mikið í stuttan tíma um það bil sem gestir komu á staðinn. Þá gerðist það einnig í fyrsta sinn hér hjá okkur að erfiðleikar urðu við að setja glærur á skjá og urðum við að snúa við dagskránni, bjóða kaffi fyrir fyrirlesturinn en ekki við lok hans.

Eftir fyrirlesturinn tók Sigríður Hjartar í Múlakoti á móti þeim sem þangað lögðu leið sína til að skoða garðinn góða. Hún tók einnig myndirnar sem hér birtast.