17.2.2020 17:12

Sæstrengur til bjargar Miðflokknum

Við þessi orð umturnaðist ritstjórn Viljans og lagði þau út á þann veg að ráðherrann boðaði sæstreng, tæki hann upp þar sem Sigmundur Davíð skildi við hann.

Um þetta leyti í fyrra lék allt á reiðiskjálfi á stjórnmálavettvangi vegna deilna um þriðja orkupakkans. Ósköp venjulegs EES-máls sem gert var að stórmáli hér vegna þess að norskir EES-andstæðingar urðu undir í norska stórþinginu og vildu hefna sín með því að fá alþingi til að‘fella pakkann.

Þá var vefsíðunni Viljanum óspart beitt gegn orkupakkanum og ráðherrunum sem höfðu forystu í málinu, Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra. Studdi Viljinn á þennan hátt baráttu Miðflokksins gegn orkupakkanum.

1157619Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (mynd: mbl.is).

Þriðji orkupakkinn var einkum gerður tortryggilegur vegna sæstrengs milli Íslands og Bretlands sem hefur ekki verið á döfinni síðan þáverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sammæltist um það við þáverandi forsætisráðherra Breta, David Cameron, að láta athuga hagkvæmni strengsins. Þetta var haustið 2015 en báðir hrökkluðust forsætisráðherrarnir frá völdum á árinu 2016 og sæstrengurinn er hvergi til rannsóknar hjá íslenskum stjórnvöldum.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, spurði Þórdísi Kolbrúnu um sæstreng í þættinum Víglínunni sunnudaginn 16. febrúar. Ráðherrann svaraði:

„Ég náttúrulega skildi það aldrei alveg, það samhengi hlutanna að það væri einhvers konar landráð að fara í útflutning í gegnum streng. Við erum í dag með útflutning í gegnum ál. Fyrir mér er það bara hagsmunamat og ég geri enga athugasemd við að það sé kannað hvort að hugsanlega það geti verið góð hugmynd fyrir Íslendinga að selja raforku til útlanda. Við gerum það bara í öðru formi í dag. Það er nú þannig að þessir strengir, það er ekki gefið að við séum bara að flytja orku út, heldur til dæmis í Noregi er hellingur af raforku flutt inn.“

Við þessi orð umturnaðist ritstjórn Viljans og lagði þau út á þann veg að ráðherrann boðaði sæstreng, tæki hann upp þar sem Sigmundur Davíð skildi við hann. Nú mátti þó ætla að rannsókn á sæstreng jaðraði við landráð.

Þórdís Kolbrún sagði mánudaginn 17. febrúar á Facebook vegna upphlaups Viljans:

„Orð mín um sæstreng í gær voru nákvæmlega engin stefnubreyting. Engin ný skoðun. Ekkert að frétta. Viljinn segir ranglega í fyrirsögn að ég hafi í viðtalinu boðað könnun á fýsileika sæstrengs. Ég var ekki að boða neitt slíkt.[...]

Sæstrengur er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Engin ný ákvörðun hefur verið tekin. Alþingi þarf að taka ákvörðun um að hefja slíka framkvæmd. Ég lagði sjálf til þær breytingar.“

Viljinn tekur að sjálfsögðu ekki tillit til orða ráðherrans heldur spólar í sama farinu „stendur við orð sín“ eins og blaðamenn segja gjarnan sé bent á að orðin eru hugarburður þeirra.

Allt sem Viljinn sagði frá eigin brjósti í fyrra um þriðja orkupakkann miðaði að því að koma illu af stað innan Sjálfstæðisflokksins enda féll það að hagsmunum Miðflokksins. Nú hefst ný herferð upplýsingafalsana um sæstreng í von um að rétta hlut Miðflokksins á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Málstaðurinn hæfir markmiðinu.