Sænskur sendiherra fyrir rétti
Málið gegn Lindstedt snýst um fund í janúar 2019. Fyrir hennar milligöngu hitti Angela Gui, dóttir fangelsaða bókaútgefandans Guis Minhais, tvo Kínverja.
Anna Lindstedt, fyrrverandi sendiherra Svía í Peking, kemur fyrir dómara í Stokkhólmi í dag (5. júní) vegna ásakana um að hún hafi farið ít fyrir umboð sitt þegar hún hafði að eigin frumkvæði milligöngu um fund sem tengist örlögum Guis Minhais, kínversk-sænsks bókaútgefanda sem er fangelsi í Kína.
Lindstedt er gamalreynd innan sænsku utanríkisþjónustunnar og var til dæmis aðalsamningamaður Svía vegna loftslagsráðstefnunnar í París 2015.
Bókaútgefandinn Gui Minhai er fæddur í Kína en hefur sænskan ríkisborgararétt. Hann stóð að útgáfu bóka um pólitíska leiðtoga Kína í Hong Kong. Hann hvarf árið 2015 á ferðalagi í Tælandi en síðan fréttist af honum í kínverska alþýðuveldinu.
Hann sat tvö ár í fangelsi, fékk frelsi í október 2017 en var handtekinn að nýju nokkrum mánuðum síðar í lest á leið til Peking í fylgd sænskra diplómata. Í febrúar 2020 var Gui Minhai dæmdur í 10 ára fangelsisvist fyrir að hafa dreift trúnaðarupplýsingum erlendis.
Málið gegn Lindstedt snýst um fund í janúar 2019. Fyrir hennar milligöngu hitti Angela Gui, dóttir Guis Minhais, tvo Kínverja, kaupsýslumanninn og prófessorinn Kevin Liu og John Mewella, kaupsýslumann og prófessor frá Sri Lanka. Sænskir fjölmiðlar segja að báðir séu þeir kínverskir njósnarar.
Anna Lindstedt
Mewella kenndi við Uleå-háskólann í Finnlandi árin 2010 – 2018 og hefur stofnað mörg fyrirtæki í Finnlandi. Liu hefur tekið sér sex ólík nöfn og var hvað eftir neitað um áritun til Svíþjóðar vegna þess að hann framvísaði fölskum skilríkjum. Hann fékk hins vegar finnska áritun.
Angela Gui sem berst opinberlega fyrir því að faðir sinn fái frelsi birti á bloggsíðu sinni í febrúar 2019 frásögn af „undarlegri reynslu“ sem hún hefði kynnst fyrir milligöngu Lindstedt í janúar 2019.
Að Lindstedt viðstaddri hefði hún rætt við tvo Kínverja í fordyri hótels í Stokkhólmi og þeir sagst geta aðstoðað hana við að fá föður hennar lausan úr fangelsi. Í staðinn yrði hún „að þegja“ og „hætta öllum fjölmiðlasamskiptum“. Síðar hefur hún sagt að andrúmsloftið á fundinum hafi verið „ógnvekjandi“.
Sænska leyniþjónustan rannsakaði málið eftir að fréttist um fundinn. Skömmu síðar var Anna Lindstedt leyst frá störfum sem sendiherra í Kína en hún hélt áfram stöðu sinni í utanríkisráðuneytinu. Innan ráðuneytisins sögðust menn ekki hafa vitað neitt um fundinn í hótelinu áður en hann var haldinn. Lindstedt hefði ein átt þar hlut að máli að eigin frumkvæði. Hún hefur ekki sagt neitt um málið sjálf. Lögfræðingur kemur fram fyrir hana hönd, neitar sök og fagnar rannsókn málsins. Í febrúar birtist grein eftir 21 fyrrv. sendiherra Svía þar sem kærunni á hendur Lindstedt er mótmælt, hún hefði staðið að málum í samræmi við starfsskyldur sendiherra.
Fyrir utan að valda Lindstedt þessum vandræðum hefur þetta mál allt spillt samskiptum kínverskra og sænskra stjórnvalda. Það er enn talið til marks um hve mikila ósvífni og hörku stjórnendur Kína sýni til að standa vörð um eigin hag.