3.11.2020 10:17

SÁÁ kveður spilakassana

Það er kannski tímabært fyrir stjórnendur ÖBÍ að líta í eigin barm eins og gert er innan SÁÁ og huga að „prinisppmálum“ í eigin starfi?

Einar Hermannsson, nýkjörinn formaður framkvæmdastjórnar SÁÁ, beitir sér fyrir slitum félagsins við Íslandsspil sem rekur spilakassa. Rannsóknir sýna þá ýta undir spilafíkn en SÁÁ vilja losa fólk undan stjórn fíknar. Einar segir þetta prinsippmál og hann hafi ekki áhyggjur af tug milljóna króna tekjutapi vegna ákvörðunarinnar. Hann sagði 1. nóvember við mbl.is

„Þetta er prinsippmál. En við höfum þá trú líka að við fáum enn meiri velvild úti í samfélaginu eftir að hafa tekið þessa ákvörðun því það eru mjög margir ósáttir við að SÁÁ sé að taka við þessum peningum.“

Islandsspil-logo-allirTillaga Einars um slitin var samþykkt einróma á framkvæmdastjórnarfundi SÁÁ fimmtudaginn 29. október en 48 manna aðalstjórn samtakanna hefur ekki fjallað um hana. Einar telur að samstaða þar um slitin sé mikil eins og í framkvæmdastjórninni.

Einar segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi með þessar aðgerðir, en þó sé mikil vinna eftir „Þetta er vegferð, en við viljum gera þetta eins hratt og hægt er.“

Einar sagði í samtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 2. nóvember: „Í ár er gert ráð fyrir um 40 milljónum króna og á næsta ári er gert ráð fyrir í kringum 34 milljónum sem við myndum fá út úr Íslandsspilum.“

SÁÁ á mikið undir velvilja almennings við öflun fjár til starfsemi sinnar auk þess sem samtökin hafa samning um fjárstuðning úr ríkissjóði. Þau eru lifandi dæmi um hve miklu einkaframtakið fær áorkað á heilbrigðissviðinu. Trúverðugleiki og traust skipta þar miklu og hafa skilað sér vel í glæsilegum árangri SÁÁ í áranna rás. Nú hafa orðið þáttaskil meðal annars í afstöðu til spilakassanna.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ), beitir sér mjög gegn Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra persónulega eins og kemur fram í sjónvarpsauglýsingu ÖBÍ á besta tíma kvöld eftir kvöld.

Tilgangur auglýsinganna er pólitískur en sé á slíkt minnst opinberlega er því umsvifalaust hafnað. Það sé ekki markmið ÖBÍ að standa í flokkspólitískum átökum heldur að berjast fyrir hag umbjóðenda sinna. Að það sé best gert með persónulegum árásum á fjármálaráðherra í sjónvarpsauglýsingum er umhugsunarvert.

Það er vandasamt ábyrgðarhlutverk að fara með stjórn samtaka á borð við SÁÁ og ÖBÍ og halda trúverðugleika þeirra út á við. SÁÁ hefur oft barist hart fyrir eigin lífi og hagsmunum skjólstæðinga sinna en jafnan gætt þess að vega ekki að eigin trúverðugleika og nú er mat stjórnenda samtakanna að það sé best gert með því að slíta tengslin við spilakassana.

Telji stjórnendur ÓBÍ trúverðugleika eigin samtaka best gætt með því að veitast að einum stjórnmálamanni eða einum stjórnmálaflokki er það pólitísk ákvörðun. ÖBÍ gætir hagsmuna viðkvæms hóps sem ber að sýna mikla tillitssemi en starfshættir samtakanna mega ekki grafa undan trausti í þeirra garð. Það er kannski tímabært fyrir stjórnendur ÖBÍ að líta í eigin barm eins og gert er innan SÁÁ og huga að „prinisppmálum“ í eigin starfi?