Rýni vegna þjóðaröryggis
Það er í raun löngu tímabært að setja heildarlög um þetta efni til að veita íslenskum yfirvöldum sambærilegar heimildir og gilda í samstarfs- og viðskiptalöndum.
Atvinnuvegaráðuneytið lagði 2. október inn á samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til heildarlaga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.
Þar segir að markmið frumvarpsins sé að leggja fram skýran og heildstæðan lagaramma um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Hugtakið „rýni“ vísar til greiningar og mats á því hvort viðskiptaráðstafanir, sem tryggja erlendum aðilum eignaraðild, veruleg áhrif eða yfirráð yfir atvinnufyrirtækjum hér á landi, ógni þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.

Þá kemur fram að frumvarpið taki mið af alþjóðlegri þróun á þessu löggjafarsviði, en flest ríki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafi þegar sett löggjöf sambærilega þeirri sem birtist í frumvarpinu, þó með mismunandi útfærslum. Þá hafi framkvæmdastjórn ESB kynnt tillögu að nýrri reglugerð um rýni erlendra fjárfestinga, sem miði að því að gera öllum aðildarríkjum sambandsins skylt að hafa til staðar rýnilöggjöf og rýna tilteknar tegundir fjárfestinga.
Tekið er fram að fjárfestingarýni sé ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar almennt heldur miði hún að því að ganga úr skugga um að einstakar erlendar fjárfestingar á afmörkuðum mikilvægum sviðum leiði ekki af sér öryggisógn.
Nú eru í gildi lög frá 1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og miðast takmarkanir í þeim sérstaklega við atvinnurekstur tengdum fiskveiðum, virkjunarréttindum, orkuvinnslu og orkudreifingu. Auk þess er opin heimild í þeim lögum fyrir ráðherra, að eigin frumkvæði, til að hefja skoðun á fjárfestingu erlends aðila sem hann telur að „ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði“. „Aldrei hefur komið til þess að þeirri heimild hafi verið beitt til að stöðva erlenda fjárfestingu eða setja henni skilyrði,“ segir í samráðsgáttinni og að lögin frá 1991 „séu um margt veikburða og skorti skýr viðmið, málsmeðferðarreglur og valdheimildir, til að um raunverulega rýnilöggjöf sé að ræða“.
Það er í raun löngu tímabært að setja heildarlög um þetta efni til að veita íslenskum yfirvöldum sambærilegar heimildir og gilda í samstarfs- og viðskiptalöndum.
Afstaðan til löggjafar um þetta efni hefur breyst hjá hagsmunaaðilum á síðustu misserum með umræðum um fjölþátta ógnir og stóraukið framboð á fjármunum til að þróa og smíða tæki til varna og hernaðar, ekki síst í Evrópu. Íslenskir stjórnmálamenn hafa hvatt til þess að einstaklingar og fyrirtæki hér á landi nýti sér tækifæri til nýsköpunar í samræmi við áherslubreytingar í framboði á evrópskum fjármunum til slíkra verkefna.
Þar er mikilvæg forsenda að unnt sé að treysta á rýniniðurstöður varðandi einstök fyrirtæki og öryggisvottanir varðandi þá sem hjá þeim starfa. Hvað sem líður erlendri fjárfestingu hér einangrast íslensk fyrirtæki á ýmsum mikilvægum sviðum hafi þau ekki vottorð um að hafa verið rýnd vegna þjóðaröryggis.