21.9.2017 12:26

RÚV í kosningabaráttu

Nærtækast er að skora á þá starfsmenn RÚV sem taka ekki á heilum sér þegar þeir hugsa um Sjálfstæðisflokkinn að flytja sig úr Efstaleiti í framboð svo að unnt sé að ræða við þá um stjórnmál á jafnréttisgrunni.

Hér hefur verið bent á nauðsyn þess fyrir þá sem hlusta á það sem fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) hefur að bjóða í aðdraganda þingkosninganna að átta sig á að starfsmenn hennar leika á vinstri vallarhelmingnum, þar hefur skotleyfið verið gefið enn á ný á Sjálfstæðisflokkinn. RÚV-hugmyndafræðingurinn Eiríkur Guðmundsson gaf tóninn um helgina eins og fram hefur komið. Hann lítur á Sjálfstæðismenn sem einskonar fáráðlinga ef ekki illmenni og liggur ekki á þeirri skoðun á Facebook.

19089-1

Í 22-fréttum sjónvarpsins miðvikudaginn 20. september ræddi fréttakona við Evu Heiðu Önnudóttur, stjórnmálafræðikennara við Háskóla Íslands, sem taldi líklegast að aðrir flokkar en Samfylkingin sem galt afhroð í kosningunum fyrir ári mundu halda sig að mestu við óbreytta framboðslista. Þá spurði fréttakonan, fulltrúi FRÚ:

„En heldurðu að Sjálfstæðisflokkurinn sé í sömu stöðu og Framsóknarflokkurinn var fyrir síðustu kosningar að enginn vilji starfa með honum eftir kosningar?“

Eva Heiða Önnudóttir svaraði:

„Ja, sko alla vega hafa flestir hinna flokkanna svona lýst yfir efasemdum um að þeir muni starfa með Sjálfstæðisflokknum og mögulega er hann aðeins kominn út í horn eins og staðan er núna.“

Í þessum orðaskiptum gefur fréttakonan, sem ekki var nafngreind í fréttatímanum, sér forsendu varðandi Framsóknarflokkinn fyrir ári og flytur hana yfir á Sjálfstæðisflokkinn nú eins og um einhverja viðurkennda staðreynd sé að ræða. Fullyrðingin í spurningunni er órökstudd en hún er hluti af áróðri þeirra sem berjast gegn Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.

Órökstudd fullyrðing er dylgjur og þeim beitti FRÚ nýlega gegn veitingastað á Akureyri sem lokaði einfaldlega af því að enginn vildi eiga við hann viðskipti eftir ófrægingarherferðina. FRÚ bætti síðan gráu ofan á svart með því að reyna að klína óhróðrinum á verkalýðsfélagið Einingu-Iðju. Félagið reis að sjálfsögðu upp til andmæla. FRÚ hafði það engu enda hluti af „RÚV okkar allra“ með sex milljarða króna á ári milli handanna.

Stjórnmálafræðingurinn ýtir varlega undir einangrunarkenninguna og verður þar með þátttakandi í spuna- eða áróðursherferð sem stunduð er af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Þeir urðu því margir klumsa yfir þeim orðum Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. þingmanns og ráðherra Samfylkingarinnar, að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, beygði sig nú í duftið fyrir Sjálfstæðismönnum í stjórnarskrármálinu en eftir kosningarnar 2016 hefði hún „brjálast“ og viljað í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Vegna skrifa Össurar sagði RÚV-dagskrárgerðarmaðurinn Guðni Tómasson á Facebook-síðu Össurar: „Fýlubombur vinstrimanna þvers og kruss eru vellyktandi fyrir Sjálfstæðisflokk og fasíska daðrara. Verði ykkur að góðu Össur...“

Fyrir Össuri vakti að koma illu af stað innan VG og tókst honum það bærilega enda hagvanur.

Nærtækast er að skora á þá starfsmenn RÚV sem taka ekki á heilum sér þegar þeir hugsa um Sjálfstæðisflokkinn að flytja sig úr Efstaleiti í framboð svo að unnt sé að ræða við þá um stjórnmál á jafnréttisgrunni.