29.5.2023 10:40

RÚV gegn lögreglu með Pírötum

Daginn eftir að þingmaður Pírata skrifaði þessa grein gegn lögreglybbi náði fréttamaður ríkisútvarpsins (RÚV) tali af dómsmálaráðherra.

Athyglisvert er að sjá hve margar fyrirspurnir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur á þessu þingi lagt fyrir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um starfshætti lögreglunnar, bæði óundirbúnar og skriflegar.

Hún vill til dæmis fá að vita nákvæmlega um verklag lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Eftir leiðtogafund Evrópuráðsins hér um miðjan maí gekk Arndís Anna á dómsmálaráðherra í þingsalnum og vildi fá að vita hvað yrði um vopnin sem keypt voru eða fengin til landsins vegna fundarins sem annar þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, stærir sig af að hafa stofnað til með baráttu á Evrópuráðsþinginu.

Þegar dómsmálaráðherra svaraði Arndísi Önnu í þingsalnum sagði hann búnaðarkaupin hafa verið fjölbreytt, alls konar varnarbúnaður, vesti og annað í þá veru, eitthvað hefði verið keypt af skotvopnum, þá hefði þurft að fjölga mótorhjólum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þannig mætti lengi telja.

Í grein á vefsíðunni Vísi 26. maí verður þetta svar ráðherrans þingmanni Pírata tilefni til að segja í upphafi: „Í svari við fyrirspurn minni á þingi í vikunni var Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, ómyrkur í máli um það að pöntuð hefðu verið ógrynnin öll af allskyns vopnum og vígbúnaði fyrir lögregluna.“

Þeir sem lesa orðaskiptin í þingsalnum 23. maí sjá að þessi lýsing á svari dómsmálaráðherra er ekki sannleikanum samkvæm. Í greininni boðar þingmaðurinn að hún vilji upplýsingar um nákvæmlega hvað var keypt, hvers vegna, og að fengnu mati hvers.

1413486

Arndís Anna færir þetta í þann búning að hún sé að gæta hags almennings og lýðræðis með ágengni sinni í garð ráðherrans og lögreglunnar. Hún er gjörsneydd öllum áhuga á að hér sé búið þannig um hnúta að lögregla geti tekist á við fjölbreytt verkefni og búi yfir vopnum sem ættu að fæla þá sem vilja rjúfa almannafrið og ógna almenningi frá hættulegum áformum sínum. Er þetta í anda þeirrar stefnu Pírata að vilja afnema gæslu á landamærum og opna þau fyrir öllum.

Daginn eftir að þingmaður Pírata skrifaði þessa grein gegn lögreglunni náði fréttamaður ríkisútvarpsins (RÚV) tali af dómsmálaráðherra og þar urðu þessi orðaskipti:

Fréttamaður: En þau verða hérna áfram, vopnin?

Ráðherra: Já að sjálfsögðu.

Fréttamaður: Í hvaða tilgangi?

Ráðherra: Það er nokkuð augljóst í hvaða tilgangi lögreglan þarf að vopnavæðast...

Fréttamaður: En er þörf á að hafa öll þessi vopn á Íslandi ef það stendur ekki til að vopnvæða lögregluna?

Líklega er Ísland eina ríkið í heiminum sem svo fávísar umræður fara fram annars vegar vegna skoðana þingmanns og hins vegar vegna þekkingarskorts fréttamanns ríkismiðils.

Að fréttastofa ríkisins gangi á svo augljósan hátt erinda Pírata er til þess fallið að halda umræðum um alvörumál utan þess sem telst skynsamlegt.