RÚV gegn Ísrael
Vegna Eurovision hafa starfsmenn ríkissjónvarpsins markvisst misbeitt aðstöðu sinni í von um að koma höggi á Ísraela.
Á vefsíðunni Glatkistunni sem Helgi Jónsson heldur úti og geymir mikið magn upplýsinga um íslenska tónlist, höfunda og flytjendur segir í upphafi færslu um Sigfús E. Arnþórsson:
„Nafn tónlistarmannsins Sigfúsar E. Arnþórssonar lætur ekki mikið yfir sér en hann starfaði með fjölda hljómsveita hér fyrrum, samdi eitt vinsælasta dægurlag sem gefið hefur verið út hér á landi og hefur einnig sent frá sér sólólplötu.“
Ferill Sigfúsar er nánar rakinn á síðunni sjá hér en af honum má ráða að þar fari maður sem hefur faglegar forsendur til að dæma um ágæti laga í Eurovision. Hann heldur úti síðu á Facebook frá Folkstone á Englandi og sagði að kvöldi fimmtudagsins 9. maí eftir að hafa horft á söngvakeppnina:
„Mér fannst Ísrael með besta lagið í kvöld. Vantaði ekki mikið upp á að það væri meistaraverk. Austurríki náði athygli minni líka. Og Danmörk var alveg ok. Lagið frá Armeníu var undarlegt.“
Söngkonan Eden Golan kemur fram fyrir Ísrael í Eurovison 2024.
Í pistli sínum í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag (11. maí) ræðir Kolbrún Bergþórsdóttir um hvernig Hera Björk, þátttakandi Íslands í söngvakeppninni, stóð með sjálfri sér og lét ekki bugast þrátt fyrir magnaðan andróður ákveðinna hópa hér gegn henni og keppninni í ár.
Kolbrún segir það hafi farið „óstjórnlega í taugarnar á einhverjum þegar Hera Björk leyfði sér að hrósa framlagi Ísraela í keppninni“. Hera Björk var sem sagt á sama máli og Sigfús sem hér er nefndur.
Kolbrún segir að í sjónvarpsþætti ríkisútvarpsins (RÚV) Alla leið í aðdraganda Eurovision hafi birst á „sláandi hátt“ andúð á Ísrael þegar lögin í keppninni í ár voru „vegin og metin og gefin stig“. Álitsgjafar RÚV hafi afgreitt lagið með hraði og: „Allir gáfu þeir laginu eitt stig, án nokkurs rökstuðnings. Ekkert mat var lagt á lagið sjálft heldur var það sjálfkrafa talið óhæft til flutnings og þátttöku í keppninni vegna stefnu Netanyahus og kóna hans.“
Kolbrún segir réttilega að þetta hafi ekki lýst mikilli fagmennsku enda hafi ýmsum blöskrað. „Til hvers er þáttur eins og þessi ef ekki er hægt að leggja faglegt mat á lag af því að það kemur frá ákveðnu landi?“ spyr Kolbrún Bergþórsdóttir sem hefur árum saman sagt álit sitt á bókum í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar, Kiljunni, og jafnan fært rök fyrir máli sínu.
Hér hefur undanfarna daga verið vakið máls á því sem birtist en ekki átti að birtast í sjónvarpinu um lóðabrask Dags B. Eggertssonar og olíufélaganna. Þar átti að þagga niður í fréttakonu án faglegra raka. Vegna Eurovision hafa starfsmenn ríkissjónvarpsins markvisst misbeitt aðstöðu sinni í von um að koma höggi á Ísraela. Kröfunni um að útiloka Ísrael hefur verið jafnað við að Úkraínumenn hefðu verið útilokaðir vegna þess að Rússar réðust inn í land þeirra. Hamas gerði árás á Ísrael og henni er svarað.
And-Eurovision sönghátíð var haldin sama kvöldið og Hera Björk söng fyrir Íslands hönd í Malmø og forseti Íslands var á hátíðinni! RÚV stendur fyrir Eurovision hér og starfsmenn þess leika tveimur skjöldum – fagleg sjónarmið víkja fyrir einkaskoðunum – ekki í fyrsta sinn.