20.12.2025 10:45

RÚV fest í sessi

Ríkisrekni miðillinn fær miðlægt markaðshlutverk, frjálsir miðlar verða eins og fylgihnettir á jaðri opinbers stuðningskerfis og nýir aðilar eiga litla möguleika á að komast á styrkjaspenann.

Það er skondið að formaður Blaðamannafélags Íslands skuli telja nýjar fjölmiðatillögur „afar jákvæðar fyrir íslenska fjölmiðla og lýðræðið í heild“. Þar er ríkisútvarpið (RÚV) gert að tekjulind fyrir aðra fjölmiðla með nýju millifærslukerfi.

Ætlunin er að um 12% auglýsingatekna RÚV renni til einkarekinna miðla, auk þess sem allar auglýsingatekjur RÚV umfram tiltekið þak renni til þeirra.

Með þessu 88/12-kerfi er staða RÚV ekki aðeins vernduð, heldur er RÚV fest í sessi sem ráðandi afl á auglýsingamarkaði. Kerfið veitir RÚV tekjuöryggi, því er ætlað að draga úr pólitískri gagnrýni á RÚV og ráðherrann sem stofnar til millifærslunnar. Markmið ráðherrans er að lögfesta samkeppnisójafnvægið. Einkareknir miðlar verða háðir því að sem mest magn auglýsinga birtist á RÚV.

„Þessi 12% miðast einfaldlega við að þau skili um 300 milljónum kr., sem er rúmlega það sem Rúv. verður bætt með því að losa það við lífeyrisskuldbindingar. Það er einfalda svarið, en endanlega talan á eftir að koma í ljós,“ segir Logi Einarsson fjölmiðlaráðherra í Morgunblaðinu í dag (20. des.).

Hann segir að hugmyndin um 12% millifærsluna hafi ekki verið útfærð og talan kunni að breytast „en við miðum við að veikja ekki Rúv. á sama tíma og við styrkjum frjálsu fjölmiðlana,“ segir ráðherrann.

1258216-1030x622

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði á ruv.is 19. desember að tillagan um 12% væri „óvenjuleg“ og það yrði farið „yfir hana nánar“. Hann sagði að tillögur sem miðuðu að því að efla og styrkja íslenskt fjölmiðlaumhverfi næðu ekki markmiði sínu ef í þeim fælist að veikja RÚV.

Ráðherra boðar að létta greiðslu lífeyrisskuldbindinga af RÚV. Þær nema 200 til 300 milljónum kr. á ári af um 8 milljarða kr. tekjum. Þá er í tillögum ráðherra gert ráð fyrir að afnumin verði lagaskylda til að halda úti tveimur útvarpsrásum, Rás 1 og Rás 2, ein rás dugi til að RÚV starfi lögum samkvæmt. Þá er lagt til að hafin verði þarfagreining á húsnæðismálum RÚV. Útvarpshúsið, sem er 16 þúsund fermetrar að stærð, hefur að sögn lengi þótt óhentugt og dýrt í rekstri. Nú er hluti þess nýttur af öðrum en RÚV.

Fyrir um 20 árum var mikið kappsmál að hætta starfsemi sjónvarps ríkisins við Laugaveg og flytja hana í Efstaleitið sem þá var talinn æskilegasti framtíðarstaður RÚV enda húsið þar reist sérstaklega fyrir útvarpsstarfsemi.

Íslensk fjölmiðlasaga hefur breyst í sorgarsögu og þær tillögur sem nú eru kynntar eru ekki til þess fallnar að létta brúnina á neinum sem ber hag öflugra innlendra fjölmiðla fyrir brjósti.

Millifærslukerfi með ríkisútvarpið sem tekjulind annarra fjölmiðla er ávísun á meiri pólitísk afskipti, flókna lagasetningu, bákn í kringum sjóð og opinbera styrkþega sem þora ekki að gagnrýna mjólkurkúna.

Ríkisrekni miðillinn fær miðlægt markaðshlutverk, frjálsir miðlar verða eins og fylgihnettir á jaðri opinbers stuðningskerfis og nýir aðilar eiga litla möguleika á að komast á styrkjaspenann. Það verður kappsmál þeirra sem þar eru fyrir að halda öðrum frá spenanum.

Það þarf sérstakt hugmyndaflug til að telja þetta afar jákvætt fyrir fjölmiðla og lýðræðið.