19.4.2023 9:15

RÚV ekki með í Rússarannsókn

Ef RÚV hefur ekki tekið þátt í sameiginlegri rannsókn á njósnum Rússa á Norðurlöndunum af því að það „gerðist ekki hér“ er það aðeins til marks um hve lítil þekking er á starfseminni í rússneskum sendiráðum hér og annars staðar.

Ríkisútvarpið, RÚV, tekur ekki þátt í rannsókn sem systrastöðvar þess annars staðar á Norðurlöndunum, DR í Danmörku, NRK í Noreg, SVT í Svíþjóð og Yle í Finnlandi, hafa gert á rússneskri njósnastarfsemi í löndum sínum og á sameiginlegum svæðum eins og til dæmis Norðursjó. Á vefsíðum þessara stöðva í dag (19. apríl) má sjá frásagnir sem snúa að öryggi einstakra landa og einnig sérstaklega að ferðum „skuggaskipa“, það er skipa sem þykjast stunda hafrannsóknir eða fiskveiðar en gegna allt öðru og skuggalegra hlutverki enda kalla stöðvarnar sameiginlegt verkefni sitt Skuggastríðið, Skuggkriget.

SVT segir frá því í dag að á vegum þess hafi njósnastarfsemi Rússa í Svíþjóð verið rannsökuð og margir rússneskir njósnarar séu skráðir sem stjórnarerindrekar (diplómatar) í landinu. Kynnti stöðin sænsku öryggislögreglunni listann Säpo til umsagnar. Fimmtudaginn 13. apríl ráku Norðmenn 15 rússneska sendiráðsmenn úr landi.

SVT leitaði álits sænska utanríkisráðuneytisins á ákvörðun norskra stjórnvalda um að brottvísa Rússunum. Ráðuneytið vísaði til þess að Säpo og aðrar sænskar stjórnarstofnanir hefðu greint frá því að Rússar stunduðu stöðugt njósnir í Svíþjóð. Í því fælist öryggisógn sem ríkisstjórnin líti mjög alvarlegum augum. Ráðuneytið útilokaði engar ráðstafanir.

Download-2-Norska ríkisútvaepið notaði opnar heimildir til að kortleggja ferðir rússneskra skipa við Noregsstrendur.

NRK segir í dag að stöðin hafi í fyrra unnið að því með norrænu ríkisstöðvunum utan Íslands að kanna opnar heimildir um siglingar skipa til að kortleggja hvernig nota megi ferðir rússneskra skipa til njósna í Noregi og frá þessu sé sagt í Brennpunkt-dokumentaren Skyggekrigen.

Fylgst var með ferðum fiskiskipa, flutningaskipa og rannsóknarskipa. Leitað hefur verið álits PST, norsku öryggislögreglunnar, á því sem fram kemur um ferðir skipanna. Hún segir njósnaþrýsting á Noreg hafa aukist. Rússnesk yfirvöld taki meiri áhættu en áður. Samskiptin við rússneska nágrannann hafi farið undir frostmark eftir að 15 voru reknir úr rússneska sendiráðinu í Osló. Norsk yfirvöld telja að Rússar njósni ekki aðeins á landi. Á hafi úti sjái færri hvað sé á seyði.

Þetta eru alvarlegar fréttir fyrir okkur Íslendinga, eyþjóð, sem lifir enn í þeirri trú að fjarlægðin frá öðrum sé hennar besta skjól. Ákvörðunin sem kynnt var í gær og fól í sér þá tímabæru stefnubreytingu stjórnvalda að nota megi aðstöðu hér til þjónustu við bandaríska kafbáta er liður í gagnráðstöfunum vegna sóknar Rússa út á Norður-Atlantshaf og Norðursjó.

Ef RÚV hefur ekki tekið þátt í sameiginlegri rannsókn á njósnum Rússa á Norðurlöndunum af því að það „gerðist ekki hér“ er það aðeins til marks um hve lítil þekking er á starfseminni í rússneskum sendiráðum hér og annars staðar.

Um leið og ákvörðun er tekin um að þjóna meira NATO-herskipum frá Íslandi ber að setja Landhelgisgæslu Íslands nýja lagaumgjörð svo að nýtt hlutverk hennar sé ótvírætt og gagnsætt. Jafnframt ber að auka fjárveitingar til eftirlits með njósnum til sjós og lands.