RÚV breytt í peningamyllu
Hér birtist athyglisverð sýn frá manni sem þekkir af eigin raun viðhorf sem ríkja í æðstu stjórn RÚV og hver eru áhrif sölu auglýsinga á gerð dagskrár miðilsins.
Þröstur Helgason, ritstjóri Bændablaðsins, hefur víða komið að blaðmennsku og útgáfumálum. Hann stofnaði til dæmis bókaútgáfuna KIND eftir að hann lét af störfum sem yfirmaður rásar 1 á ríkisútvarpinu (RÚV).
Í Bændablaðinu sem kom út 15. janúar skrifar Þröstur leiðara undir fyrirsögninni: RÚV og einkamiðlarnir.
Hann hefst á þessum orðum:
„Ef stofnun fjölmiðils er verulega óskynsamleg hugmynd – jafnvel vitlausari en að stofna bókaútgáfu eða fjárbú – þá hefur eitthvað farið úrskeiðis í samfélaginu. Ef ráðherra fjölmiðla sér ástæðu til að geta þess sérstaklega í aðgerðapakka, sem ætlað er að styrkja rekstur fjölmiðla, að blaðamennska skipti samfélagið máli, þá er það enn frekar til marks um að eitthvað mikið hafi farið úrskeiðis.“
Þröstur segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort tillögur sem Logi Einarsson fjölmiðlaráðherra kynnti fyrir áramót um 2-300 milljóna kr. stuðning við fjölmiðla hér muni hafa veruleg áhrif á rekstrargrundvöll fjölmiðlanna eða fjölga blaðamönnum svo einhverju nemi.
Þá víkur Þröstur að boðaðri aðgerð ráðherrans um að láta 12% af auglýsingasölu RÚV renna til einkarekinna fjölmiðla. Þar birtist dapurleg „sýn á hlutverk almannamiðilsins“. Það geti einfaldlega ekki orðið eitt af meginhlutverkum RÚV „að selja auglýsingar til að afla tekna fyrir aðra fjölmiðla“. Að starfsemi RÚV og dagskrá miði að sölu auglýsinga vinni gegn hlutverki miðilsins.

Bestu og áhrifaríkustu almannamiðlar Evrópu séu ekki seldir undir auglýsingar til að þeir þurfi ekki að taka tillit til auglýsingasölu í dagskrá sinni. Þeir geti einbeitt sér að því að sinna hlutverki sínu.
Pólitísk umræða um RÚV þurfi að breytast og fjalla um hlutverk miðilsins. Rekstrarlegar forsendur þurfi svo að styðja við hlutverkið. Auglýsingar verði að hverfa úr RÚV. Við það yrði RÚV ekki berskjaldaðra gagnvart fjárveitingarvaldi ríkisins vegna þess að fjárveitingar til RÚV hafi verið skornar niður og verði skornar niður ef pólitískur vilji er fyrir því.
Þröstur segir aðgerðir fjölmiðlaráðherrans „fálmkenndar“. Á bak við þær sé ekki það hugrekki sem þurfi. Allar aðgerðir séu til einhvers í þessu sambandi en það sé löngu orðið „aðkallandi að sýndur verði raunverulegur vilji til þess að viðhalda og helst efla lýðræðislega innviði í landinu“.
Hér birtist athyglisverð sýn frá manni sem þekkir af eigin raun viðhorf sem ríkja í æðstu stjórn RÚV og hver eru áhrif sölu auglýsinga á gerð dagskrár miðilsins.
Þegar útvarpsstjóri brást við tillögum fjölmiðlaráðherrans var ekki minnst á þá hlið sem Þröstur nefnir heldur beindist athyglin öll að peningum. RÚV yki auglýsingasölu í þágu annarra miðla en myndi fá aflétt greiðslum vegna lífeyrisskuldbindinga.
Það sjá allir sem nenna að leiða hugann að því sem hér er sagt að aldrei fyrr hefur verið ráðist á markvissari hátt á tilverurétt RÚV. Þar snýst allt um peninga og stofnunin veður í þeim miðað við aðra íslenska fjölmiðla. Ríkisútvarpið varð ekki til fyrir tæpum 100 árum í þessum tilgangi.