26.6.2019 10:55

Rússum hleypt í Evrópuráðsþingið

Evrópuráðsþingið veitti Rússum atkvæðisrétt að nýju þrátt fyrir ofríki og virðingarleysi við grunngildi Evrópuráðsins.

Þing Evrópuráðsins í Strassborg samþykkti þriðjudaginn 25. júní að veita rússneskum þingmönnum að nýju atkvæðisrétt á Evrópuráðsþinginu, þeir voru sviptir honum eftir hernaðarbrölt Rússa hófst gegn Úkraínumönnum árið 2014 og Rússar innlimuðu Krímskaga í trássi við alþjóðalög. Sögðu þeir skilið við þingið árið 2016.

Alls voru 118 þingmenn samþykkir því að veita Rússum atkvæðisréttinn, þar á meðal fulltrúar Íslands, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (pírati hér en sósíalisti á þinginu í Strassborg) og Rósa Björk Brynjólfsdóttir (VG). Þeir sem voru andvígir að aflétta kvöðinni af Rússum voru 62 en 10 greiddu ekki atkvæði.

25russia-council1-jumboÞingsalur Evrópuráðsins í Brussel.

Þá samþykkti þingið einnig sérstök ákvæði sem gera rússnesku þingmönnunum kleift að kjósa nýjan framkvæmdastjóra Evrópuráðsins á þingfundi miðvikudaginn 26. júní. Þeim er það kappsmál því að Didier Reynders, utanríkisráðherra Belga, sem er vinveittur Rússum er í hópi frambjóðenda.

Frakkar, Þjóðverjar og Svisslendingar sem hafa þungavigt á 47 þjóða þinginu í Strassborg beittu sér fyrir því að aflétta banninu á Rússa. Frakkar sögðust vilja tryggja að Evrópuráðið næði til allra þjóða álfunnar. Amelie de Montchalin, Evrópumálaráðherra Frakka, sagði að á Evrópuráðsþinginu stunduðu menn ekki „geopólitík“ heldur stæðu vörð um „gildi mannréttinda“.

Víða er dregið í efa að í því felist þrá eftir virðingu rússneskra yfirvalda fyrir mannréttindum að láta undan kröfum þeirra í þessu máli, það hafi vegið þyngra innan Evrópuráðsins að árið 2017 hættu Rússar að greiða aðildargjöld sín að ráðinu, þau nema árlega 32.6 milljónum evra. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, lofaði að gera upp skuldina tafarlaust fengju rússnesku þingmennirnir atkvæðisrétt í Strassborg.

Málsvarar Rússa sögðu á þinginu að færu þeir úr Evrópuráðinu, eins og þeir hefðu orðið að gera vegna þess að þeir greiddu ekki árgjöldin, bitnaði það á rússneskum almenningi sem gæti ekki lengur leitað réttar síns hjá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE). Venjulega hafa rússnesk yfirvöld þó niðurstöðu MDE að engu.

Þingmenn frá Úkraínu og stjórnvöld landsins mótmæla niðurstöðu Evrópuráðsþingsins harðlega. Volodymyr Ariev, formaður þingmannahóps Úkraínu, sagði þingið hafa sent „mjög slæm skilaboð“ til Kremlar: „Gerið bara það sem þið viljið, innlimið hluta annars lands, drepið þá sem þar búa og þið komist upp með þetta allt saman.“

Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, lýst vonbrigðum sínum: „Lettar voru andvígir þessari ákvörðun vegna þess að hún grefur undan virðingu fyrir lykilgildum: lýðræði, réttarríkinu og mannréttindum.“

Alina Poljakova, fræðimaður við Brookings Institution í Washington, sagði við The New York Times:„Frá 2014 hafa Rússar aðeins hert á þvingunaraðgerðum sínum heima fyrir og árásargirni erlendis. Ákvörðunin um að hleypa Rússum aftur inn í Evrópuráðið boðar aðeins að þessi framkoma er liðin. Það er hættulegt fordæmi fyrir aðra. Frá innrásinni á Krímskaga árið 2014 hafa Rússar ráðist inn í Donbas [austurhluta Úkraínu], stutt Assad í Sýrlandi, blandað sér í kosningar í Bandaríkjunum og Evrópu, reynt að drepa Skripal-feðginin auk annars. Hvernig samrýmist þessi hegðan aðild að Evrópuráðinu?“

Er nema von að spurt sé? Rússneskir þingmenn og embættismenn hafa löngum vaðið um stofnanir Evrópuráðsins á skítugum skónum. Ráðið setur niður hætti það að veita þeim verðugt aðhald.