28.3.2018 11:49

Rússneskur þingmaður gerir lítið úr íslensku fullveldi

Íslensk stjórnvöld hljóta að mótmæla niðurlægjandi ummælum rússneska þingmannsins og benda honum á að þau eigi ekki við nein rök að styðjast.

Mikhail Degtjarjev, þingmaður og formaður nefndar um íþrótta-, ferða- og æskulýðsmál í neðri deild rússneska þingsins, segir ákvörðun íslenskra ráðamanna um að sniðganga heimsmeistaramótið í knattspyrnu næsta sumar bera þess merki að Ísland sé í raun ekki fullvalda ríki. Hann segir: Ísland er orðið gísl – eða eins og þeir segja, fórnarkostnaður – í röð pólitískra ögrana af hendi Breta og Bandaríkjamanna.“

Morgunblaðið birtir þennan óhróður á forsíðu sinni í dag (28. mars). Hann er til marks um afneitun rússneskra ráðamanna þegar kemur að viðbrögðum annarra þjóða við eiturefnaárásinni í Salisbury.

Myndin er úr rússneska þinginu.

Það er rétt sem fram kemur í leiðara Fréttablaðsins í dag þar sem Kjartan Hreinn Njálsson segir:

„Vonandi er sú linkind sem þjóðarleiðtogar hafa sýnt rússneskum yfirvöldum á enda. Brottrekstur 140 diplómata er öflugt svar og sömuleiðis eru viðbrögð íslenskra yfirvalda yfirveguð, viðeigandi og umfram allt uppbyggileg þar sem áhersla er lögð á að halda samskiptaleiðum milli Rússlands og Íslands opnum.

Sama hvert svar rússneskra yfirvalda verður við aðgerðum og þrýstingi þá er það fyrir öllu að rússneska þjóðin verði ekki látin gjalda fyrir gjörðir leiðtoga sinna.“

Íslensk stjórnvöld hljóta að mótmæla niðurlægjandi ummælum rússneska þingmannsins og benda honum á að þau eigi ekki við nein rök að styðjast auk þess séu þau sérstaklega móðgandi í ár þegar þess er minnst og fagnað að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.  

Full ástæða er að hafa varann á þegar formaður nefndar um íþrótta-, ferða- og æskulýðsmál í neðri deild rússneska þingsins talar. Hann er í hópi rússneskra ráðamanna sem hafa skapað pólitískt skjól fyrir þá sem stunda skipulega lyfjamisnotkun í heimi rússneskra íþrótta með þeim vafasama árangri að Rússum er bannað að taka þátt í alþjóðlegri keppni þar sem gerðar eru kröfur um að grunnreglur séu hafðar í heiðri.

RT er áróðurs-fréttastöð sem starfar í skjóli Kremlverja. Hún sendi frá sér frétt þriðjudaginn 27. mars um ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar. Hófst fréttin á þessum orðum:

„Iceland has announced it will be boycotting the World Cup this summer. It comes after the US and EU countries announced the expulsion of diplomats over the Sergei Skripal poisoning case.“

Þessi texti verður ekki skilinn á annan hátt en þann að Íslendingar ætli ekki að taka þátt í HM í sumar. RT er þekkt fyrir upplýsingafalsanir, ein slík birtist í þessari frétt.

Ummæli rússneska þingmannsins um að Ísland sé gísl Breta og Bandaríkjamanna er í samræmi við línuna frá Moskvu um þessar mundir að Bandaríkjastjórn hafi snúið upp á hendur bandamanna sinna og knúið þá til að grípa til gagnaðgerða gegn Pútín og félögum. Þetta er annar tónn en friðmælin undanfarið frá Moskvu í garð Donalds Trumps. Kremlverjum er greinilega brugðið vegna almennrar fordæmingar í þeirra garð.

Theresu May forsætisráðherra og Boris Johnson utanríkisráðherra Breta hefur tekist að mynda samstöðu margra þjóða gegn framgöngu Rússa. Moskvumönnum tekst ekki að splundra þeirri samstöðu með því að tala niður til viðkomandi þjóða – þeim er nær að segja satt og rétt frá sínum hlut.