10.6.2023 9:53

Rússneski sendiherrann úr landi

Ekki er nánar útskýrt hvað felst í kröfunni um að starfsemi sendiráðsins verði lágmörkuð „til samræmis við þessa ákvörðun“. Verða aðeins húsverðir starfandi þar?

Hér hefur oftar en einu sinni verið hvatt til þess að sendiherra Rússa yrði vísað úr landi vegna framkomu hans í garð þjóðarinnar og stjórnvalda í vörn hans fyrir stríðsglæpum stjórnar sinnar í Úkraínu. Þá er á allra vitorði að rússneskir diplómatar eru að stórum hluta útsendarar rússneskra njósnastofnana og hér hefur stofnun rússneska hersins GRU löngum haft undirtökin meðal njósnara í sendiráðinu.

Í apríl ráku norsk stjórnvöld 15 rússneska njósnara úr landi, Svíar sendu 5 úr rússneska sendiráðinu á brott síðar í sama mánuði og nú í vikunni var 9 Rússum vísað á brott frá Helsinki.

Þung krafa er um að Rússar loki ræðismannsskrifstofu sinni í Mariehamn á Álandseyjum en tilvist hennar má rekja til 1940 þegar það var liður í friðargerð Finna og Rússa að rússnesk yfirvöld gætu haft eftirlit með því að engin hernaðarmannvirki yrðu á eyjunum.

Undirskriftasöfnun gegn ræðismannsskrifstofunni hófst í apríl á þeirri forsendu að hún ógnaði finnsku öryggi. Í maí frystu Rússar bankareikninga finnska sendiráðsins í Moskvu og lokuðu finnskum ræðismannsskrifstofum í Murmansk og Petrozavods. Hannu Himanen, fyrrverandi sendiherra Finnlands í Moskvu, sagði þá að tímabært væri að Rússar hyrfu frá Álandseyjum.

Fuz2YQzWYAE2x9EMyndin er tekin af Twitter síðu Þórdísar Kolbrúnar. Þarna hittir hún Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, í Odessa 28. apríl 2023.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 9. júní sagði að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefði ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi. Sendiherra Rússlands hefði verið kallaður í utanríkisráðuneytið 9. júní og honum tilkynnt um þessa ákvörðun. Þá var honum tjáð að gert væri ráð fyrir að Rússland lækksaði „fyrirsvar sitt“ hér á landi þannig að sendiherra stýrði ekki lengur sendiráði Rússlands í Reykjavík. Þá hefði Rússlandi „verið gert að lágmarka starfsemi sendiráðsins á Íslandi til samræmis við þessa ákvörðun“.

Ekki er nánar útskýrt hvað felst í kröfunni um að starfsemi sendiráðsins verði lágmörkuð „til samræmis við þessa ákvörðun“. Verða aðeins húsverðir starfandi þar?

Vitað var að yrði hróflað við sendiherra Rússlands hér myndu Rússar svara í sömu mynt og reka Íslendinga á brott úr sendiráði Íslands í Moskvu. Ákvörðun ráðherrans um að hætta starfsemi íslenska sendiráðsins í Moskvu leiðir til þess að Rússar verða að grípa til annarra gagnaðgerða.

Þegar þetta er ritað hafa engar fréttir borist um viðbrögð Rússa. Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, þakkaði hins vegar Þórdísi Kolbrúnu með færslu á Twitter fyrir ákvörðun hennar og sagði „Rússar verða kynnast því að villimennska leiðir til algjörrar einangrunar. Ég hvet önnur ríki til að fara að fordæmi Íslendinga,“ sagði Kuleba.

Alþjóðlegar fréttastofur sögðu frá ákvörðuninni og hennar er einnig getið á vefsíðunni meduza.io sem haldið er úti á rússnesku og ensku af rússneskum andstæðingum Pútins.