25.1.2022 10:56

Rússar ögra Írum

Rússar ætla að efna til live-fire flotaæfingar undan suðvestur strönd Írlands eftir fáeina daga. Orðin live-fire þýða að ekki verður æft með púðurskotum.

Frá því var skýrt um helgina að Rússar ætli að efna til live-fire flotaæfingar undan suðvestur strönd Írlands eftir fáeina daga. Orðin live-fire þýða að ekki verður æft með púðurskotum.

Í leiðara The Irish Times segir þriðjudaginn 25. janúar að tilkynning Rússa um æfinguna sé Írum „holl áminning“ um að Úkraína sé þeim mun nær –geópólitískt að minnsta kosti – en þeir vilji gjarnan ætla. Þá minni hún einnig á að evrópskt öryggi sé ekki hólfaskipt heldur myndi eina heild.

Blaðið segir að írski utanríkisráðherrann Simon Coveney hafi skýrt utanríkisráðherrum annarra ESB-ríkja frá þessari „óvelkomnu“ æfingu innan írsku efnahagslögsögunnar á fundi mánudaginn 24. janúar þegar þeir ræddu spennuna sem myndast hefur vegna umsáturs rússneska hersins um Úkraínu.

IrmageBent er á að nú séu um 125.000 hermenn í umsátrinu og þar með séu hersveitir í Hvíta-Rússlandi og herfloti á Svartahafi. „Vopnaglamur með rússneskri flotaæfingu undan strönd Írlands, klassískt dæmi um pólitíska ögrun með hervaldi (e. gunboat diplomacy), er liður í sálrænni uppþembu lífshættulegs orða- og vopnaskaks milli ráðamanna í Moskvu og á Vesturlöndum sem engu skilar að lokum,“ segir írska blaðið.

Minnt er á að Bandaríkjastjórn hafi sett nokkur þúsund hermenn í stöðu til skyndiflutnings til Evrópu og kallað hluta stjórnarerindreka sinna heim frá Kiev. Þá hafi breska utanríkisráðuneytið vitnað til leynilegra upplýsinga um að Yevhen Murayev, fyrrv. þingmaður í Úkraínu, sé leppur Rússa og eigi að fara fyrir stjórn Úkraínu að valdboði Vladimirs Pútins Rússlandsforseta.

Hann hafi neitað og sagt fullyrðingu Breta órökstudda. Sér væri bannað að fara til Rússlands og fjármunir, sem fyrirtæki föður hans hefði átt þar, hafi verið gerðir upptækir.

Blaðið segir þessi ummæli álíka trúverðug í eyrum sumra og fullyrðingar KGB-foringja um að hann hefði heimsótt Salisbury á Englandi vegna áhuga á dómkirkjunni þar. Sovétmenn hefðu á sínum tíma haft þá reglu að koma á fót leppstjórnum sem síðan kölluðu á hjálp frá Moskvu með fullyrðingum um að þeim væri ógnað frá útlöndum.

Blaðið segir að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi rætt við ESB-ráðherranna 24. janúar með fjarfundabúnaði. ESB leggi ekki til herafla til að fæla Rússa frá árás en þátttaka ESB og aðildarríkja sambandsins skipti sköpum þegar komi að efnahagslegum refsiaðgerðum sem verði beitt komi til innrásar í Úkraínu. Leiðaranum lýkur á þessum orðum:

„„Án alls efa erum við reiðubúnir til alhliða refsiaðgerða, víðtækari en nokkru sinni, ráðist Rússar að nýju inn í Úkraínu,“ sagði Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana. Refsiaðgerða þar sem Írar taka þátt af nauðsyn og fúslega.“

Hér er vitnað í þennan írska leiðara til þess að vekja einkum athygli á tvennu: (1) Rússar beita herflota sínum eins og þeim hentar á Norður-Atlantshafi. Allt tal um að herfloti Rússa haldi sig aðeins langt fyrir norðan Ísland er ímyndun. (2) Írar eru hlutlausir. Þeir hika þó ekki við að skuldbinda sig til refisaðgerða gegn Rússum. Ögranir Rússa í írsku efnahagslögsögunni eru áminning um nauðsyn þess að bogna hvorki né brotna gagnvart gunboat diplomacy.