10.4.2023 10:02

Rússar afskrifa Norðurskautsráðið

Berlingske segir að í nýju rússnesku stefnuskjali sé Norðurskautsráðið afskrifað sem samstarfsvettvangur og Rússar ætli greinilega að leika einleik.

Um páskahelgina hafa á vardberg.is birst tvær greinar, annars vegar viðtal við Lars Løkke Rasmussen , utanríkisráðherra Dana, sem birtist á altinget.dk, og hins vegar leiðari af vefsíðunni Berlingske . Í báðum tilvikum er athygli beint að því sem gerist á norðurslóðum og hvatt til þess að stigið sé fastar í ístaðið til að Rússar, og Kínverjar í skjóli þeirra, nái ekki undirtökunum með ógnandi hernaðarlegum umsvifum.

Berlingske segir að í nýju rússnesku stefnuskjali sé Norðurskautsráðið afskrifað sem samstarfsvettvangur og Rússar ætli greinilega að leika einleik og velja þá með sér í lið sem þeim séu þóknanlegir og þar séu Kínverjar augljóslega efstir á lista.

Í samtalinu við Lars Løkke Rasmussen segir Andreas Krog, sérfræðingur altinget.dk, að Rússar hafi í mörg ár unnið gegn anda yfirlýsinga um norðurslóðir sem lágspennusvæði með hervæðingu sinni á norðurslóðum (d. Arktis). Þeir hafi opnað að nýju og endurgert margar herstöðvar frá sovéttímanum, reist nýjar stöðvar og skipulega unnið að því að auka hernaðarleg umsvif sín í norðri.

„Hervæðing einkennir það sem gerist í norðurhluta Rússlands og það kann hugsanlega að breyta hættumyndinni. Það á ekki að falla frá þeirri ætlan okkar að halda í Arktis sem lágspennusvæði. En við verðum einnig að líta á málin af raunsæi,“ segir Lars Løkke Rasmussen.

DownloadrrrRússneskar herstöðvar við Norður-Íshaf.

Það er spurning hve lengi norrænir utanríkisráðherrar ætla að halda í vonina um lágspennu í norðri og tala annars vegar um hana og hins vegar um vaxandi hernaðarleg umsvif Rússa í skjóli hennar. Kannski gera þeir það þar til það rennur upp fyrir þeim í maí, þegar Rússar láta af formennsku í Norðurskautsráðinu og Norðmenn taka við af þeim, að ráðið er í raun dautt í núverandi mynd. Vonin um að þar mætti eiga „eðlilegt“ alþjóðasamstarf við Rússa brást og í kjölfar slíkra vonbrigða sigla oft sárindi sem einkennast af tortryggni og hörku.

Danir eiga gífurlegra hagsmuna að gæta í norðri í nafni danska konungsríkisins. Grænlendingar fóta sig nú við mótun eigin utanríkisstefnu og bíða Danir nú eftir niðurstöðu þeirra áður en þeir uppfæra norðurslóðastefnu sína.

Í maí hefjast viðræður danskra stjórnmálamanna í flokkunum sem standa þar að langtímasamkomulaginu um varnarmál. Ætlunin er að móta stefnu og ákveða útgjöld til næstu 10 ára. Í greiningarskjali sem birt var í fyrra til undirbúnings viðræðunum var þeirri skoðun lýst að samstarf Norðurskautsríkjanna kynni að opna leið til diplómatískra samskipta við Rússa að loknu stríðinu í Úkraínu. Rússar loka þeirri leið í nýju stefnuskjali sínu með því að afskrifa Norðurskautsráðið.

Þögn íslenskra stjórnvalda um þessa þróun alla og viðbrögð við henni er ærandi. Viðtalið við Lars Løkke Rasmussen staðfestir enn það sem hér hefur margsinnis verið sagt að íslensk stjórnvöld hljóta að leggja sitt af mörkum ekki aðeins til að efla og styrkja öryggi Íslands heldur einnig til að auðvelda bandamönnum okkar að gæta öryggis á eigin landsvæðum og þá ekki síst við austur og norðaustur Grænland.