27.5.2017 13:05

Rússa-tengslin í innsta hring Trumps

Jared Kushner, tengdasonur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, lagði til við rússneska sendiherrann í Bandaríkjunum, Sergej Kisljak, að komið yrði á fót leynilegri fjarskiptaleið milli starfsmanna Hvíta hússins og rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Enn sannast að veruleikinn er ótrúlegri en skáldsaga. 

Hefði njósnasöguhöfundi dottið í hug að tengdasonur verðandi forseta Bandaríkjanna færi þess á leit við rússneska sendiherrann í Washington að tengdasonurinn, náinn ráðgjafi forsetans tilvonandi, gæti haft beint samband við trúnaðarmenn í Moskvu án þess að NSA, bandaríska Þjóðaröyggisstofnunin, gæti hlerað samskiptin?

Nú hefur The Washington Post sagt frá því að Jared Kushner, tengdasonur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hafi lagt til við rússneska sendiherrann í Bandaríkjunum, Sergej Kisljak, að komið yrði á fót leynilegri fjarskiptaleið milli starfsmanna Hvíta hússins og rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Í blaðinu er vitnað í ónafngreinda heimildarmenn innan bandaríska stjórnkerfisins. Blaðið segir að Kushner hafi gengið svo langt að spyrja hvort nota mætti aðstöðu á vegum rússneska sendiráðsins í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir að fylgst yrði með samskiptunum.

Fréttamaður CNN ræddi við Alan Dershowitz, lagaprófessor við Harvard (hann var hér í apríl 2008). Hann segir að ólíklegt að sækja megi Kushner til saka vegna málsins – ef marka megi fréttir um það. Athæfið ætti þó að teljast lögbrot.

Fimmtudaginn 25. maí sögðu NBC News og The Washington Post að bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakaði hlut Kushners í tengslum við Rússa-rannsókn sína sem er á hendi sjálfstæðs saksóknara, Roberts Muellers, eftir að Trump rak James Comey, forstjóra FBI, sem fór með Rússa-rannsóknina og er sagður hafa neitað Trump um að hætta henni. Trump segir að hann sæti nornaveiðum með rannsókninni.

Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, sagði af sér eftir að upplýst var að hann hafði sagt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, ósatt um samtal sitt við Sergej Kisljak, sendiherra Rússa.

Rússa-málið verður æ verra fyrir Trump og hver varnarmúr hans hrynur eftir annan. Harkan í viðbrögðum hans kann að hafa stafað af því að hann vissi að böndin mundu berast að tengdasyni hans.

Eins og Watergate-málið sýndi er það ekki verknaðurinn sjálfur sem kann að vera Bandaríkjaforseta stjórnskipulega lífshættulegur heldur viðbrögð hans. Nú þegar Trump snýr heim úr fyrstu utanlandsferð sinni sem forseti færist ný harka í átökin við hann vegna Rússa-málsins.