26.10.2018 10:30

„Rosalega hneykslið“ í Þjórsárdal

Þetta voru sem sagt allt getgátur um að þarna hefðu verið unnin einhver umtalsverð náttúruspjöll – „rosalegt hneyksli“.

Þegar 300 bandarískir landgönguliðar voru óvopnaðir á gönguæfingu í Þjórsárdal í roki og rigningu laugardaginn 20. október fór Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, þangað. Hann sagði frá því fréttum þennan sama dag að þarna hefðu einnig verið „tugir hernaðarandstæðinga“. Hann ræddi við þá og þetta birtist meðal annars á ruv.is:

„Mótmælendur höfðu miklar áhyggjur af birkitrjám sem nýverið voru gróðursett á svæðinu. „Þetta er planta sem fannst liggjandi fyrir utan eitt tjaldið og þetta er sem sagt birkiplanta, á að giska fimm ára gömul. Ein af þeim sem hefur verið gróðursett hér, verðandi Hekluskógur,“ segir Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur og kennari sem var á svæðinu í dag. „Og mér finnst þetta ótrúleg smekkleysa að vísa her á æfingu þar sem eru eins til fimm ára birkiplöntur. Og þeir vita ekki af þessu. Mér finnst þetta rosalegt hneyksli.“

Þetta varð fréttapunkturinn – þetta „rosalega hneyksli“. Jóhann Bjarni fylgdi málinu eftir í hádegi sunnudaginn 21. október og ræddi þá við Hrein Óskarsson, fulltrúa Skógræktarinnar. Fréttin hófst á þessum orðum:

„Skógræktin telur ljóst að tjón hafi orðið á birkiskógrækt í Þjórsárdal þegar heræfing fór þar fram í gær. Starfsmenn Skógræktarinnar ætla að fara og meta tjónið á morgun.“

Í fréttinni féllu orð á þennan veg:

Jóhann Bjarni: Heldurðu að það hafi valdið einhverju tjóni á þeirri skógrækt sem þarna er?

Hreinn: „Við sjáum að það hefur eitthvað verið rifið upp af plöntum og eitthvað traðkað niður. En við þurfum bara að skoða þetta á morgun og meta hvort það hafi orðið miklar skemmdir. Það er svolítið sérstakt að þarna skuli heræfingu vera beint inn á svona svæði þar sem verið er að vinna að uppgræðslu, sérstaklega á þessum síðustu tímum þegar skógrækt á að vera eitt af stóru málunum í sambandi við loftslagsvernd. Og að valda jafnvel skemmdum á skóginum, það er svolítið sérstakt.“

Picture1Bandarísku landgönguliðarnir í Þjórsárdal.

Þetta voru sem sagt allt getgátur um að þarna hefðu verið unnin einhver umtalsverð náttúruspjöll – „rosalegt hneyksli“.

Í Morgunblaðinu í dag (26. október) er rætt við Björgvin Skafta Bjarnason, oddvita í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hann segir „skemmdir á gróðri óverulegar“ í Þjórsárdal og síðan:

 „Það koma sennilega hátt í 100.000 manns á ári inn í Þjórsárdal. Þetta er því dagskammtur sem þarna var á ferð. Skógræktarmenn segja að þetta sé ekkert mál. Þetta nær ekki 100 plöntum og tjónið hleypur á svona 20 til 30 þúsund krónum. Það er nú ekki mikið að gerast ef þetta er aðalfréttin.“

Lokaorð Björgvins Skafta segja allt um málið. Það var ekkert að gerast og því ákvað fréttastofa ríkisins að gera þetta að „aðalfrétt“  og fékk aðra til að spila með þar til hið rétta kom í ljós. Líklega má nota orðið falsfrétt um þetta „rosalega hneyksli“.

 Uppfært kl. 13.51:  Vegna fyrri samskipta minna við þá sem stjórna FB-síðunni Fjölmiðlanördar deildi ég þessari færslu þangað. Hún hlaut ekki náð fyrir augum regluvarðanna og var afmáð. Stjórnendur síðunnar æfa sig greinilega í ritskoðun á efni frá mér.