30.5.2019 9:55

Rökþrota málþófsmenn

Miðflokksmenn vilja ræða þriðja orkupakkann að degi til svo að fólk hafi tækifæri til að hópast á þingpalla til að hlusta á þá.

Þingfundur hefur verið boðaður á morgun, föstudaginn 31. maí, klukkan 09.30. Þetta er óvenjulegur tími fyrir þingfund en ástæða hans er líklega ósk miðflokksmanna um að fá að ræða þriðja orkupakkann að degi til svo að fólk hafi tækifæri til að hópast á þingpalla til að hlusta á þá. Þingforseti kemur þarna greinilega á móts við óskir þeirra.

Í meðferð miðflokksmanna á málinu sannast að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG), formanni Miðflokksins, er ógerlegt að semja.

SDG telur sig ætíð í glímu við einhverja sem gera á hlut hans. Eftir að hafa raðað sér á mælendaskrá nótt sem nýtan dag og fengið að tala hver við annan í þingsalnum tímunum saman vill SDG nú breyta eigin málþófi í vandamál forseta alþingis. Mannsins sem hagar dagskránni þannig að miðflokksmenn eiga sviðið tímunum saman.

PallAf þingpöllum.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður er annar varaformaður Miðflokksins. Hún skrifar grein í Morgunblaðið í dag (30. maí) og segir í upphafi hennar:

„Við í Miðflokknum höfum staðið á þingi á aðra viku og rætt orkupakkann. Þrátt fyrir að hafa þurft að sitja undir gagnrýni frá einhverjum þjóðfélagshópum höfum við haldið umræðunni áfram og þrátt fyrir að sömu gagnrýnisraddir vilji meina að þetta sé populismi hjá okkur eða við gerum þetta því okkur finnist svo gaman að hlusta á okkur sjálf tala þá er það ekki raunin. Raunveruleikinn er sá að okkur finnst þing og þjóð skorta þekkingu á þessu mikilvæga máli og höfum við því leitast við að setja fram nýja vinkla og koma með upplýsingar sem nýtast í umræðunni.“

Af tóninum má ráða að varaformanninum er ljóst að hún og flokksbræður hennar hafa enn einu sinni gengið fram af þjóðinni. Að þau skuli ekki láta þar við sitja ræðst af firringu flokksformannsins. Varaformaðurinn lýsir henni sem þörf fyrir að upplýsa þingið og þjóðina! Þess vegna vill hún fá að flytja ræður sínar að degi til. Þegar fréttamenn leita til SDG og spyrja um „nýju vinklana“ bætist ekkert við þekkingarforða neins. Öllum er í raun sama hvað þau segja eins og fámenni fjöldafundurinn á Austurvelli sýndi laugardaginn 25. maí.

Þingnefndir eru sá vettvangur sem þingmenn hafa til að afla sér þekkingar á málum. Þeir kynna hana síðan í skriflegu áliti. Miðflokksmenn sýndu störfum utanríkismálanefndar óvirðingu þegar hún kallaði á sérfræðinga til að skýra þriðja orkupakkann. SDG og félögum hentaði ekki að hlusta á þá sem hafa mesta þekkingu á málinu hér. Þá var þeim sama um alla öflun og miðlun upplýsinga.

Nú þegar miðflokksmenn hafa talað sig út í horn vilja þeir fresta málinu „svo hægt væri að kynna það betur“ segir Anna Kolbrún varaformaður. Skyldi hún trúa þessu sjálf?