19.1.2021 11:16

Rökþrot á skiltum

Þessi könnun og birting frétta af henni er fyrst og síðast til marks um rökþrot þeirra sem telja sig vita betur en sérfræðingar bankasýslunnar hvort réttmætt sé nú að selja hlut í Íslandsbanka.

Í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem samþykkt voru árið 2012 þegar Oddný Harðardóttir, núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var fjármálaráðherra segir að Bankasýsla ríkisins geri tillögu um sölu fjármálafyrirtækis, banka. Tillaga bankasýslunnar um sölu á hlut af eign ríkisins í Íslandsbanka liggur nú fyrir.

Fjármálaráðherra fellst á tillöguna og lögum samkvæmt hefur greinargerð um sölumeðferð farið fyrir fjárlaganefnd og viðskiptanefnd alþingis. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra flutti alþingi í gær (18. janúar) auk þess munnlega skýrslu um tillögu bankasýslunnar varðandi söluna á Íslandsbankahlutnum.

27173689_565515807131785_9136014250328434023_oMyndirnar eru af Facebook-síðu Skiltakarlanna. Þeir létu til sín sjá 2018 þegar forseti danska þingsins tók þátt í 100 ára afmæli fullveldis Íslendinga.

Images_1611054922860

Eftir þinglega meðferð og að fenginni umsögn seðlabanka tekur fjármálaráðherra ákvörðun um sölumeðferðina þar sem áhersla skal „lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti,“ eins og segir í lögunum frá 2012. Bankasýsla ríkisins skal annast sölumeðferðina hún „undirbýr sölu, leitar tilboða í eignarhlut, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð,“ segja lögin.

Í Fréttablaðinu í dag (19. janúar) er birt niðurstaða í könnun sem gerð var á vegum MMR að frumkvæði og á kostnað hóps sem kallar sig Skiltakarlana. Spurt var: „Hversu vel eða illa treystir þú Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka?“

Leifur A. Benediktsson og Ólafur Sigurðsson birta myndir af sér og alls kyns skiltum á Facebook-síðu Skiltakarlana. Þeir leika sér að því að sýna heimagerð myndskreytt skilti með hrakyrðum í garð andstæðinga sinna á fjölförnum stöðum. Þeir tróðu sér inn í Kryddsíldina á gamlársdag, það er beina útsendingu á samtali forystumanna stjórnmálaflokkanna á Stöð 2, með því að leggjast á glugga upptökusalarins.

Skiltakarlarnir kostuðu ofangreinda spurningu í könnun MMR, spurningu sem gefur alls ekki rétta mynd af ferlinu sem hafið er vegna sölu á hlutnum í Íslandsbanka. Spurningin er í anda óvildarinnar sem karlarnir ala á í garð Bjarna Benediktssonar og magnast á kosningaári. Setur trúverðugleika MMR niður við að eiga aðild að slíku áróðursbragði svo að ekki sé minnst á hlut fjölmiðlanna Fréttablaðsins og Kjarnans.

Í hvorugum miðlinum er gerð tilraun til að skýra fyrir lesendum að spurningin og könnunin snýst um annað en nú er á döfinni varðandi Íslandsbanka. Áberandi er hve Kjarninn segir á ábúðarmikinn hátt frá þessari meingölluðu og misvísandi könnun enda kallar hann þá Leif og Ólaf „þrýstihóp“.

Þessi könnun og birting frétta af henni er fyrst og síðast til marks um rökþrot þeirra sem telja sig vita betur en sérfræðingar bankasýslunnar hvort réttmætt sé nú að selja hlut í Íslandsbanka. Hlægilegust er gagnrýni stjórnmálamanna á söluna vegna kosninga í september. Gagnrýnin sýnir vantrú þeirra á eigin málstað. Tryðu þeir að andstaða við söluna nyti stuðnings þorra fólks ættu þeir einmitt að fagna að fá tækifæri til að kynna hana á kosningaári.