11.4.2020 12:15

Röggsamur ríkissáttasemjari - bragðdauf fréttamennska

Það er frekar bragðdauf fréttamennska að innan sama fjölmiðlahópsins kasti menn lausafréttum af þessu tagi á milli sín til að halda í þeim lífi.

Aðalsteinn Leifsson, nýskipaður ríkissáttasemjari, sýndi af sér mikla röggsemi nú í dymbilvikunni þegar hann hélt viðmælendum í deilu hjúkrunarfræðinga að verki dag eftir dag með þeim árangri að sátt náðist að lokum.

Var löngu tímabært að hjúkrunarfræðingar semdu. Enginn samningur hefur verið í gildi frá því í mars 2019.

IMG_1114Bjart yfir Snæfellsjökli 11. apríl 2020

Fréttir af sátt í deilunni draga ekki að sér eins mikla athygli og ágreiningurinn. Sumir hafa beinlínis farið hamförum á Facebook vegna þessa óleysta máls undanfarna sólarhringa. Vonandi leggja þeir sig jafnrösklega fram núna til að hvetja til þess að samningurinn verði samþykktur. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist ánægð með samninginn og mælir með honum við félagsmenn sína.

Hér var bent á það fyrir skömmu að hjúkrunarfræðingar ættu skilið betri málsvara en Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata. Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvaða mál hún tekur fyrir næst til að „halda sér í umræðunni“. Nýjasti vettvangur hennar er Mannlíf undir ritstjórn Reynis Traustasonar. Skyldi hann verða ritstjóri málgagns Pírata?

Fjölmiðlar í eigu Helga Magnússonar, endurskoðenda og fjárfestis, birta lausafréttir dag eftir dag um að ólga sé meðal sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs. Í Fréttablaðinu, flaggskipi fjölmiðlaveldis Helga, er enn ein frásögnin um þetta efni og þar segir meðal annars:

„Bæði Eyjan á vef DV og sjónvarpsstöðin Hringbraut hafa fjallað um að líkur séu á að Ármann [Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi] hyggist ekki ætla leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum.“

Eftir því sem best er vitað lúta starfsmenn þessara fjölmiðla allir sömu yfirstjórn í reynd þótt ritstjórar eða fréttastjórar séu nokkrir. Þá er starfsstöð miðlanna allra að Kalkofnsvegi 2, 101 Reykjavík.

Það er frekar bragðdauf fréttamennska að innan sama fjölmiðlahópsins kasti menn lausafréttum af þessu tagi á milli sín til að halda í þeim lífi. Þegar rýnt er í texta fréttanna sést að þær eru reistar á orðrómi. Birting þeirra virðist helst hafa þann tilgang að vega bæjarstjóranum, líklega í von um að hann dragi sig í hlé.