12.9.2019 10:14

Róðurinn þyngist fyrir Boris

Þetta er ófögur lýsing og segja fréttaskýrendur óskiljanlegt að ríkisstjórn með þetta skjal í höndunum skuli tala eins og brexit án samnings komi almennt til álita.

Áður en Boris Johnson forsætisráðherra rak breska þingið heim samþykktu þingmenn að ríkisstjórnin ætti að birta skjal sem ber heitið Operation Yellowhammer. Íslenska orðið fyrir fuglinn yellowhammer er gultittlingur. Skýringin á að talað er um aðgerð vegna brexit með þessu nafni er að innan breska stjórnarráðsins datt einhverjum góðum manni í hug að kenna brexit-aðgerðaskjöl við fugla.

_108752099_mediaitem108757467Spáð er óralöngum röðum flutningabíla verði brexit án samnings.

Þetta skjal um það sem gerðist yrði gengið úr ESB án samnings var samið á meðan Theresa May var forsætisráðherra og einhver ráðherra í stjórn hennar sem ekki er í náðinni lengur lak efni þess til The Sunday Times fyrir rúmri viku. Vegna samþykktar þingsins var það birt í gær (11. september). Hér eru 10 punktar úr því:

  • 1. Komið getur til fjöldafunda með og á móti um allt Bretland sem kalli á „umtalsverðan“ fjölda lögreglumanna. Uppnám getur orðið hvarvetna í þjóðlífinu.
  • 2. Dagurinn eftir útgöngu er föstudagur sem er yfirvöldunum ef til vill óhagstætt. Auk þess kunni að vera vetrarfrí í skólum.
  • 3. Vöruflutningar yfir Ermarsund kunna að dragast saman um 40% á dag og allt að sex mánaða truflun geti orðið á þeim. Þetta kunni að hafa áhrif á birgðir lyfja og lækningavara.
  • 4. Minni innflutningur getur leitt til alvarlegrar truflunar í fæðukeðjunni vegna skorts á lykilhráefnum. Vöruúrval minnkar og vöruverð hækkar sem hefur vond áhrif fyrir þá sem verst eru settir.
  • 5. Vegna truflana á ferðum yfir Ermarsund kunna að myndast bílaraðir í Kent og tafir orðið á ferðum flutningabíla á leið til Frakklands. Fari allt á versta veg kunna flutningabílar að tefjast í 36 til 60 klukkutíma vegna landamæraeftirlits. Þetta ástand getur varað í allt að þrjá mánuði áður en það batnar um 50 til 70%.
  • 6. Verðbólga eykst „umtalsvert“. Þetta bitni á eldra fólki sem nýtur minni félagslegrar aðstoðar vegna minnkandi þjónustu.
  • 7. Bretar sem ferðast til ESB-landa kunna að sæta auknu eftirliti á landamærum þeirra.
  • 8. Ekki er unnt að koma í veg landamæri á milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.
  • 9. Allt að 282 fiskiskip frá ESB- og EES-löndum munu stunda ólöglegar veiðar í breskri lögsögu eða verða þar við veiðar við útgönguna úr ESB. Þetta veki reiði meðal breskra sjómanna og til átaka kunni að koma á fiskimiðunum.
  • 10. Viðbúnaður almennings og fyrirtækja vegna þess sem gerist við útgöngu án samnings verður lítill og minnkar enn vegna óvissu um hver er stefna stjórnvalda auk þess sem menn eru orðnir langþreyttir á talinu um aðferð við útgöngu.

Þetta er ófögur lýsing og segja fréttaskýrendur óskiljanlegt að ríkisstjórn með þetta skjal í höndunum skuli tala eins og brexit án samnings komi almennt til álita. Krafan um að breska þingið komi saman og ræði stöðu mála er sett fram af meiri þunga nú en áður.