RLS og ábyrgð Sigmars
Sigmar hefur setið fimm ár á alþingi og þar með gegnt skyldu sem eftirlitsmaður með störfum stofnana ríkisins og afgreiðslu ríkisreiknings á grundvelli skýrslu ríkisendurskoðunar.
Ríkisendurskoðandi hefur það meginhlutverk að: Endurskoða ríkisreikning og reikninga stofnana, sjóða og félaga sem ríkið á eða hefur verulegan hlut; tryggja að meðferð og ráðstöfun ríkisfjár sé í samræmi við lög, fjárlög og samþykktir alþingis; meta hvort fjármunir ríkisins séu nýttir á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt; gera alþingi grein fyrir niðurstöðum í skýrslum til fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Fram á tíunda áratuginn kaus alþingi þrjá þingmenn sem yfirskoðunarmenn ríkisreiknings. Með nýjum lögum um ríkisendurskoðun frá 1997 var nefnd yfirskoðunarmannanna aflögð og fékk þá fjárlaganefnd þingsins og síðar einnig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hlutverkið sem yfirskoðunarmennirnir höfðu. Þingmenn hafa þannig sjálfstætt eftirlit með því að ríkisendurskoðandi standi rétt að verki.
Skömmu eftir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur settist að völdum urðu snarpar umræður um fjárveitingar til eins stjórnarflokksins, Flokks fólksins. Fyrir lá að árum saman hafði formaður hans, Inga Sæland, ekki gætt settra reglna en þó þegið styrktarfé úr ríkissjóði. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, lagði blessun sína yfir þessi fjárútlát.
Hér er þetta nefnt vegna framgöngu flokksbróður Daða Más, Sigmars Guðmundssonar, formanns þingflokks Viðreisnar, í umræðum um fjármál embættis ríkislögreglustjóra (RLS). Þar hefur engin athugasemd verið gerð af eftirlitsaðilum eins og var vegna Flokks fólksins.
Sigmar Guðmundsson (mynd:mbl.is).
Í lok liðinnar viku sagði Sigmar þó á Facebook:
„Stjórnandi sem jafnt og þétt yfir fimm ára tímabil hefur hagað fjármálum embættisins með þeim hætti að traust til lögreglunnar bíður hnekki er ekki endilega rétti einstaklingurinn til að endurvinna traustið. Embættið hlýtur að vera stærra en einstaklingurinn sem gegnir því.“
Sigmar hefur setið fimm ár á alþingi og þar með gegnt skyldu sem eftirlitsmaður með störfum stofnana ríkisins og afgreiðslu ríkisreiknings á grundvelli skýrslu ríkisendurskoðunar. Að maður í hans stöðu skuli haga orðum sínum á þann veg sem þarna má sjá sýnir að hann hefur ekki sinnt skyldum sínum.
Er Sigmar að segja að ríkisendurskoðandi hafi ekki heldur sinnt þeirri skyldu sinni sem lýst er hér í upphafi? Ríkisendurskoðandi áritaði síðast ríkisreikning fyrir árið 2024 30. júní 2025.
RLS hefur hvorki fengið athugasemdir frá ríkisendurskoðun né alþingi árin fimm sem Sigmar Guðmundsson hefur setið á alþingi. Ríkislögreglustjóri hefur viðurkennt mistök við verklag en það nýtir Sigmar sér með þessari setningu í grein í Morgunblaðinu í dag (10. nóvember): „Mér sýnist að flestir séu þeirrar skoðunar að þarna hafi ekki verið farið vel með fjármuni enda liggur fyrir viðurkenning á því af hálfu embættisins.“
Þessi orð eru aumkunarverð. Þingmaðurinn leitar skjóls í ímynduðu almenningsáliti til að leyna eigin ábyrgð fyrir utan að rangtúlka orð ríkislögreglutjóra. RLS hefur gert hreint fyrir sínum dyrum og starfað með blessun alþingis.