14.6.2017 15:23

Risavaxinn og þjóðhættulegur fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar

Er fjárhagsvandinn svo mikill hjá Reykjavíkurborg að borgarfulltrúum fallast hendur andspænis honum? Hvers vegna þessi afneitun?

Jónas Elíasson, prófessor emeritus, ræðir alvarlega fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í Morgunblaðinu í gær, þriðjudag 14. júní. Hann segir að bráðabirgðaákvæði í lögum bjargi borgarstjórn frá að verða svipta fjárræði. Hún fái að „stjórna sínum fjármálum sjálf – enn sem komið er“ vegna eignarhlutans í Orkuveitu Reykjavíkur. Á næsta kjörtímabili falli hins vegar þetta ákvæði úr gildi og sé ekki annað að sjá en að þá falli hamarinn á borgina. Jónas segir:

„Bjarga má fjármálum venjulegra bæjarfélaga með góðum vilja og samningum við lánardrottna, en 380 milljarða króna skuld Reykjavíkurborgar (kr. 380.000.000.000) verður vart bjargað með slíkum hætti. Til að svo megi verða þarf þjóðarátak. Skuldastaða Reykjavíkur er þjóðhættuleg.“

Í Morgunblaðinu í dag, 14. júní, ræðir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, þessa alvarlegu stöðu almennum orðum. Minnihlutanum í borgarstjórn hefur því mistekist að koma því nægilega vel til skila hve illa Reykjavíkurborg stendur fjárhagslega.

Í viðtali við mig á ÍNN fyrir viku sagði Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar alþingis, að lögin um opinber fjármál næðu ekki aðeins til fjármála ríkisins heldur einnig sveitarfélaganna. Þegar á þau væri litið hlytu menn að hafa áhyggjur af stöðu Reykjavíkurborgar. Við fórum ekki nánar út í þá sálma enda snerist viðtal okkar um annað. Áhyggjur Haralds fóru ekki á milli mála enda segir Jónas Elíasson stöðuna „þjóðhættulega“.

Spurning er hvort einskonar afneitun ríki vegna þessa máls í borgarstjórn Reykjavíkur. Þannig hugarfar skapast stundum hjá þeim sem búa við slíka skuldabyrði að þeir rísa alls ekki undir henni.

Blaðamaður Morgunblaðsins ræðir við Líf Magneudóttur, forseta borgarstjórnar og oddvita vinstri grænna, sem segir það alltaf markmið sveitarstjórnarmanna að ná sjálfbærum rekstri sveitarfélagsins og uppfylla lög!

Síðan fer hún almennum orðum um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og að vinstri græn hafi ekki vilja reka hana „eins og hvert annað einkafyrirtæki“.

Miðað við alvarlegar ábendingar Jónasar Elíassonar er fréttin í Morgunblaðinu eins og einhvers konar misskilningur. Fjármál Reykjavíkurborgar verður að ræða af meiri festu og skýrleika en viðmælendur blaðsins gera – það er ef til vill ekki aðeins afneitun sem ræður heldur máttleysi gagnvart þessu risavaxna verkefni. Það eitt er þjóðhættulegt áhyggjuefni.