27.8.2019 6:04

Risamálverk af orrustu

Eitt af því sem sjá má í Wroclaw í Póllandi og hvergi annars staðar er risavaxið málverk, 15 m á hæð og 120 m langt, sem sýnir orrustuna við Ractawice.

Eitt af því sem sjá má í Wroclaw í Póllandi og hvergi annars staðar er risavaxið málverk, 15 m á hæð og 120 m langt, sem sýnir orrustuna við Ractawice í suðvesturhluta Póllands 4. apríl 1794 þegar Pólverjar sigruðu Rússa.

Um 100 árum síðar ákváðu kaupsýslumenn í Lvov, austast í Póllandi, að efna til sýningar til að draga athygli að afrekum Pólverja í viðskiptum og listum. Þar á meðal fólu þeir listamönnum að mála þessa mynd og reistu sérstakt hringhús, rotunda, til að hýsa hana. Var verkið þar til sýnis frá 5. júní 1894 og dró strax að sér hundruð þúsunda áhorfenda. Þegar Sovétmenn sóttu inn í Pólland var sprengju kastað á hringhúsið 9. apríl 1944 og 12. apríl var ákveðið að taka verkið niður og geyma það á öruggum stað.

Hafist var handa 1. júní að vefja verkinu upp á trékefli og tók fimm daga að ljúka því. Síðan var smíðaður kassi utan um keflið, brotið gat á húsið og verkið flutt í kassanum í klaustur Bernandina. Þar var það til 1946 þegar samningar tókust milli sovésku hernámsyfirvaldanna og fulltrúa Pólverja um að verkið yrði í umsjá pólska ríkisins. Var síðan ákveðið að flytja það til Wroclaw. Striginn var 3500 kg að þyngd og keflið 1500 kg en með öllum umbúnaði var heildarþyngdin um 9 tonn.

Sovétmenn vildu ekki að almenningur fengi að sjá söguna um sigurinn á Rússum. Í Wroclaw lögðu heimamenn sig fram um varðveislu verksins og undirbjuggu smíði nýs hringhúss til að sýna það. Vangaveltur voru uppi um að flytja verkið til Kraká eða Varsjár en þegar Solídarnos, Samstöðu, óx fiskur um hrygg haustið 1980 myndaðist hreyfing undir merkjum hennar í Wroclaw sem barðist fyrir að verkið yrði þar og 14. júní 1985, 41 ári eftir að verkinu var bjargað í Lvov, gafst almenningi loks kostur á að að sjá það að nýju í hringhúsinu þar með það er enn þann dag í dag í Wroclaw.

Jafnan bíða menn í röðum eftir að komast að sjá verkið, Fyrst þegar við ætluðum að skoða það sunnudaginn 25. ágúst var þriggja tíma bið. Það fór ekki á milli mála í skoðunarferð mánudaginn 26. ágúst að sagan sem sögð er á þennan einstaka hátt hefur djúpstæð áhrif á Pólverja. Ferðin um hringhúsið og kynningin tekur tæpar 30 mínútur.

IMG_9083IMG_9076IMG_9078

Hér fylgja nokkrar myndir af hringhúsinu og því sem þar má sjá.

IMG_9085Einnig eru hér myndir af minnismerki um fjöldamorð Sovétmanna á tugum þúsunda Pólverja í Katyn-skógi. Minnismerkið var reist árið 1999.

IMG_9100Pólverjar eru að sjálfsögðu stoltir af landa sínum Jóhannesi Páli II. páfa og þessi stytta af honum er í Wroclaw.