Ringulreið í komusal
Sextán flugvélar lentu milli 15.00 og 16.00 þennan laugardag á Keflavíkurflugvelli og ringulreiðin í komusalnum var algjör.
MR-64-árgangur lauk ferð sinni laugardaginn 4. september með Icelandair flugi frá Genf sem lenti á Keflavíkurflugvelli 15.50, fimm mínútum á undan áætlun. Engin COVID-formsatriði voru af hálfu svissneskra yfirvalda á Genfar-flugvelli en við innskráningu hjá Icelandair var nauðsynlegt að sýna bólusetningarvottorð eins og almennt á veitingastöðum í Frakklandi.
Í Genf var við innskráningu spurt um COVID-is strikamerkið sem er gefið út eftir að handhafi þess hefur staðfest að hann hafi farið í sýnatöku innan 72 klukkustunda fyrir brottför og niðurstaðan verið neikvæð. Það hafði hópurinn gert í Annecy þar sem frönsk sýnatökustöð bókaði tíma fyrir hvern og einn sem greiddi 50 evrur (7.500 kr.) fyrir sýnið, niðurstaða var send samdægurs í tölvubréfi, hún var neikvæð hjá öllum.
Sextán flugvélar lentu milli 15.00 og 16.00
þennan laugardag á Keflavíkurflugvelli og ringulreiðin í komusalnum var algjör.
Hér birtast tvær myndir af mannfjöldanum færðist næsta stjórnlaust í langri röð
fram og aftur að útgöngudyrum.
Leiðsögn af hálfu ISAVIA var lítil sem engin. Eina tilkynningin sem heyrðist í hljóðkerfi var um að hafa ætti strikamerki COVID.is tiltækt. Ekkert var sagt um hve vænta mætti langs biðtíma í loftlítilli kösinni þar sem allir báru grímur en eins eða tveggja metra reglna var að engu höfð. Einhvers staðar stóð að tafir kynnu að verða 20 til 50 mínútur en það tók okkur á annan klukkutíma að komast út um tollhliðið.
Þar fyrir utan hafði heilsugæslan komið fyrir borðum þar sem starfsmenn hennar sátu og báðu um skilríki: vegabréf, bólusetningarvottorð, COVID-is strikamerkið og staðfestingu á að sýni hefði verið tekið innan 72 stunda. Yfirlýsing viðkomandi þegar hann skráði sig til að fá íslenska strikamerkið var ekki tekin góð og gild. Í komu-anddyri flugstöðvarinnar var mannþröngin mikil enda rok og rigning utan dyra. Þar bauðst Íslendingum að fara í sýnatöku.
Þegar gengið var út um tollhliðið blasti ástæðan fyrir langa biðtímanum í komusalnum við augum: skoðunarborð heilsugæslunnar voru ekki einu sinni hálfmönnuð.
Miðað við hvað bólusetningar í Laugardalshöll
gengu fljótt og skipulega fyrir sig vakti undrun að skipulag heilsugæslunnar
væri ekki betra í flugstöðinni. Vitað er að á tímanum milli 15.00 og 16.00 lenda
flestar áætlunarvélar á flugvellinum. Ætla mætti að þá væru öll skoðunarborð í
flugstöðinni mönnuð til að farþegar neyddust ekki til að dvelja í mannþröng í rými
sem stenst engar kröfur heilbrigðisyfirvalda til að minnka líkur á smiti.
Viðbót:
Í hádegi sunnudags 5. september fórum við að Suðurlandsbraut í COVID-hraðpróf eins og skylt er innan 48 tíma frá heimkomu að utan. Engin biðröð var þar og afgreiðsla til fyrirmyndar. Sýni var tekið úr nös og innan 30 mínútna birtist tilkynning frá covid.is í farsímanum: Skimun sýnir að þú ert ekki með COVID-19 sjúkdóminn.
Skimunarstöð heilsugæslunnar við Suðurlandsbraut er opnuð klukkan 09.00 á sunnudögum og þegar ég ók þar fram hjá á leið úr sundi í morgun hlykkjaðist löng biðröð um allan garðinn fyrir framan húsið og leitaði fólk sér skjóls fyrir rigningunni undir trjánum.