5.6.2017 18:56

Ríkisútvarpið segir May í vanda

Bogi Ágústsson, helsti sérfræðingur ríkisútvarpsins í alþjóðamálum, hefur boðað að erfitt kunni að reynast að mynda meirihlutastjórn í Bretlandi að kosningunum loknum. 

Fréttastofu ríkisútvarpsins er ekki mikið um Theresu May, forsætisráðherra Breta, gefið ef marka má fréttirnar í gær og í dag um minnkandi fylgi hennar og Íhaldsflokksins í þingkosningabaráttunni í Bretlandi – kosið verður fimmtudaginn 8. júní.

Bogi Ágústsson, helsti sérfræðingur ríkisútvarpsins í alþjóðamálum, hefur boðað að erfitt kunni að reynast að mynda meirihlutastjórn í Bretlandi að kosningunum loknum. Í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 í dag var boðað að fylgi við Íhaldsflokkinn minnkaði og May sætti ámæli fyrir að hafa fækkað lögreglumönnum um 20.000 þegar hún var innanríkisráðherra. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, vildi að May segði af sér.

Á vefsíðunni telegraph co.uk birtist síðdegis dag hvern stutt úttekt á því sem hæst ber í bresku kosningabaráttunni. Blaðamenn sem skrifa úttektina hafa allt annað sjónarhorn en fréttamenn ríkisútvarpsins á Íslandi. Þar segir að eðlilega séu öryggismál ofarlega á dagskrá tveimur dögum eftir síðasta hryðjuverkið í London. Corbyn hafi riðið á vaðið að kvöldi sunnudags 4. júní með því að saka May um að reyna að „vernda almenning með sparnaði“ enda hefði lögreglumönnum fækkað um 20.000 á meðan hún var innanríkisráðherra.

Forsætisráðherrann svaraði að morgni mánudags 5. júní með því að segja Corbyn „skorta jafnvel minnstu hæfni til að sinna starfinu [embætti forsætisráðherra]“ með því til dæmis að „veita IRA [hryðjuverkamönnum írska lýðveldishersins] skjól“. Hún svaraði einnig árás Corbyns á fækkun í lögreglunni með því að benda á að sem innanríkisráðherra hefði hún fjölgað vopnuðum lögreglumönnum og starfsmönnum við öryggisstofnanirnar MI5, MI6 og GCHQ um 1.900.

Eftir að May svaraði á þennan hátt færðist Corbyn í aukana í viðtali við ITV-sjónvarpsstöðina og hvatti til þess að May segði af sér sem forsætisráðherra vegna afskipta hennar af lögreglunni. Þegar hann var spurður hvort hann mundi styðja kröfu um afsögn hennar svaraði hann: „Vissulega mundi ég gera það.“ Hann breytti um tón í viðtali nokkru síðar og áréttaði að hann teldi að hún ætti ekki að segja af sér. „Ég dreg ekki neitt í land. Nú er kosningabarátta. Valið er í höndum hvers og eins.“

Tebbit lávarður særðist og kona hans lamaðist í sprengjuárás IRA á flokksþing íhaldsmanna árið 1984. Hann sagði í grein mánudaginn 5. júní að kjósendur vissu að hefði Corbyn verið forsætisráðherra þegar hryðjuverkið var framið laugardaginn 3. júní hefðu fleiri saklausir borgarar týnt lífi og þrír hryðjuverka-morðingjar væru enn á lífi. Það væri erfitt að ímynda sér að íhugulir kjósendur tækju ranga ákvörðun á kjördag.

Á vefsíðunni telegraph co.uk segir frá könnun sem sýnir að 45% ætla nú að kjósa Íhaldsflokkinn en 34% Verkamannaflokkinn.