25.8.2017 9:41

Ríkisendurskoðun sögð hafa gefið Viðreisn og Helga ráð

Framkvæmdastjóri Viðreisnar segir flokkinn hafa stuðst við túlkun ríkisendurskoðunar við fjárhagslegar ákvarðanir við stofnun flokksins.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að Helgi Magnússon fjárfestir hefði lagt persónulega 800.000 kr. til stjórnmálaflokksins Viðreisnar og tvö félög alfarið í hans eigu lagt flokknum til 400.000 kr. hvort, samtals stóð Helgi þannig að baki 1.600.000 kr. framlagi til unnt væri að ýta Viðreisn úr vör. Flokkurinn var stofnaður af fólki sem hafði orðið undir í ESB-málum innan Sjálfstæðisflokksins og sakaði hann síðan um að svíkja málstað sinn.

Spurningar hafa vaknað um hvort Helgi Magnússon og Viðreisn hafi með þessu brotið reglur um hámarksframlag einstaklings til stuðnings stjórnmálaflokki. Guðbrandur Leósson, sérfræðingur ríkisendurskoðunar, segir um þetta í Fréttablaðinu fimmtudaginn 24. ágúst: „Ef þú átt tvö fyrirtæki þá mátt þú og þessi tvö fyrirtæki borga hámarksfjárhæð.“ Ríkisendurskoðun sjá einstaklinginn og félög hans ekki sem tengda aðila í skilningi laga um fjármál stjórnmálasamtaka. Lögin mæla fyrir um að við stofnun flokks megi einstaklingur og félag veita flokki allt að 800.000 kr. stuðning.

Guðbrandur nefnir þarna tvö fyrirtæki. Hann er þar væntanlega aðeins að vísa til tilviks Helga Magnússonar. Einstaklingur sem á fjögur, sex eða átta fyrirtæki getur væntanlega nýtt sömu leið og Helgi til að fjármagna stofnun flokks um menn og málefni að sínu skapi.

Að þessu áliti ríkisendurskoðunar fengnu eru ákvæði laganna um fjármál stjórnmálasamtaka hliðholl umsvifamiklum fjármagn- og félagaeigendum sem koma fram undir mörgum kennitölum í krafti fyrirtækja sinna.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, segir við vefsíðuna Stundina miðvikudaginn 23. að flokkurinn hafi stuðst við umrædda túlkun ríkisendurskoðunar á lögunum þegar tekið var við 1,6 milljón króna fjárstyrk frá fjárfestinum og félögum sem hann á 100 prósenta hlut í á stofnári Viðreisnar, 2016.

Þessi orð framkvæmdastjórans má skilja á þann veg að leitað hafi verið ráðgefandi álits ríkisendurskoðunar við stofnun Viðreisnar til að tryggja að fjárhagslegir bakhjarlar flokksins stigu engin feilspor við ráðstöfun fjármuna sinna í þágu málstaðarins.

Fjallað var um þetta mál í Staksteinum Morgunblaðsins miðvikudaginn 23. ágúst og þar sagði meðal annars:

„Nú hefur verið greint frá því að Viðreisn hafi notið margfalt hærri framlaga frá tilteknum fjárfesti og tengdum aðilum.

Augljóst er að þar var um að ræða aðila sem kosta kapps um að koma Íslandi inn í ESB og hafa meðal annars rekið sjónvarpsstöð í þeim tilgangi.

Þessar upplýsingar sem fram hafa komið fela vitaskuld í sér alvarlega gagnrýni á starfsemi Viðreisnar og leitaði mbl.is útskýringa hjá formanni flokksins.

Svo vill til að formaður flokksins er jafnframt fjármálaráðherra og hefur því tvöfalda skyldu til að svara.

Hann kaus að gera það ekki. Er það forsvaranleg afstaða?“

Undir þessa spurningu skal tekið. Að auki er nauðsynlegt að fá á hreint hvort það sé rétt hjá framkvæmdastjóra Viðreisnar að ríkisendurskoðun hafi verið til ráðgjafar við ákvarðanir um fjármál þegar Viðreisn var stofnuð.