23.7.2022 10:26

Ríki skaðræðis og hryðjuverka

„Á 20 árum hefur Rússland alþjóðavæðst á þversagnakenndan hátt og alið af sér það sem nú er: ríki skaðræðis og hryðjuverka sem er grundvallarógn við skipan alþjóðamála.“

Sergei Medvedev er rússneskur fræðimaður. Hann hefur verið prófessor við Hagfræðiháskólann í Moskvu, áður starfaði hann við Marshall-öryggisfræðamiðstöðina í Þýskalandi, Finnsku utanríkismálastofnunina í Helsinki, Alþjóðamálastofnunina í Róm og Evrópustofnunina í Moskvu. Medvedev hlaut árið 2020 Pushkin-bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína sem þýdd var á ensku undir heitinu: The Return of the Russian Leviathan. Fréttabréfið og vefsíðan Desk Russie hóf göngu sína í maí 2021 undir forystu franska félagsins A l'Est de Brest-Litovsk sem stofnað var í janúar 2021 í þeim tilgangi að semja og dreifa gæðaupplýsingum og skýringum á málefnum Rússlands og landanna sem áður voru innan Sovétríkjanna fyrir utan að segja frá stefnu Rússlands inn á við og út á við. Hópur sérfræðinga í málefnum Rússlands og Austur-Evrópu stendur að Desk Russie: reynslumiklir blaðamenn, rannsakendur, sagnfræðingar, sérfræðingar í alþjóðamálum.

Medvedev-portrait-500-10df36d01Sergei Medvedev.

Þessi kynning er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag 23. júlí en þar birtist greinin Sölumenn óttans eftir Sergei Medvedev. Þar segir meðal annars:

„Við vitum að hryðjuverk eru vopn þeirra sem eru veikburða – Palestínumanna, íslamista eða vinstrisinna – til að brjóta kerfi hinna öflugu. Þeir beita óskipulegum aðferðum gegn þeim sterkari, stofna til mótmæla og sýna fórnarlömbum sem fyrir tilviljun verða á vegi þeirra grimmd með það að markmiði að hrella ríkisstjórnir og almenning. Þetta er einmitt aðferðin sem Pútín beitir um þessar mundir til að vega upp á móti augljósu máttleysi Rússlands á sviði efnahagsmála, tækni og utanríkismála. Hann hóf feril sinn sem maður „nútímavæðingar“ í líkingu við Mahatir Mohamad [í Malasíu], Tony Blair, Bill Clinton, alþjóðlega leiðtoga sem hverjum um sig tókst að laga þjóð sína að alþjóðavæðingunni.

Á 20 árum hefur Rússland alþjóðavæðst á þversagnakenndan hátt og alið af sér það sem nú er: ríki skaðræðis og hryðjuverka sem er grundvallarógn við skipan alþjóðamála.

Það er á þennan hátt sem staða Rússlands á heimskortinu ákvarðast: hafi Vestrið áður talið að Rússland yrði áfram jaðarríki sem nýtti afrakstur náttúruauðlinda sinna til kaupa á neysluvörum, ríki stjórnfestu sem héldi Evró-Asíu frá upplausn, hefur þessi draumsýn nú að engu orðið á 21. öldinni. Rússland hefur umturnast úr hrávörubirgi í hryðjuverka- og glæparíki. Þótt farið yrði að „skilyrðum Pútíns“ breytti það engu, hungur Kremlverja mundi aðeins aukast við það og verða hvati enn frekari útflutnings á upplausn, ótta og ofbeldi. Eftir því sem stríðið í Úkraínu skýtur fastari rótum og spurningar vakna meðal sérfræðinga um hvort Pútín ætli að ráðast á fleiri: Georgíu? Moldóvu? Pólland? Litháen? – leggjast hörmungarnar þyngra á samvisku okkar. Hér er ekki um að ræða svæðisbundið stríð innan marka Evrópu eins og ýmsir ábyrgðarmenn í evrópskum stjórnmálum vilja halda, heldur stærstu áskorun sem Vestrið hefur staðið frammi fyrir frá annarri heimsstyrjöldinni.“

Greinina ættu allir að lesa til að fá nasasjón af Kremlverjum samtímans og stjórnarháttum þeirra. Við lifum tíma þar sem að nýju má tala um veröld sem var.