10.2.2025 8:40

Reynt á þanþol Facebook

Þegar á reyndi höfnuðu ritskoðaðar Facebook að birta og afmáðu það án frekari skýringa. Hér er þetta birt í nafni málfrelsis og verður spennandi að sjá hvort það fái nú náð fyrir augum ritskoðunarinnar.

Nýlega var skýrt frá því að allri ritskoðun yrði hætt á Facebook. Þar hefur her manns unnið að því árum saman að fara yfir efni og hreinsa það út sem ekki fellur að ritstjórnarstefnu miðilsins. Nú er boðað að þessum afskiptum verði hætt ekki síst fyrir áhrif frá auðugasta manni heims, Elon Musk, sem á netmiðilinn X og beitir honum óspart í eigin þágu.

Neðangreint efni um afskipti Musks af kosningabaráttunni í Þýskalandi og minnkandi sölu á Teslu þar birtist á vefsíðunni vardberg.is föstudaginn 7. febrúar undir fyrirsögninni: Söluhrun á Teslu í Þýskalandi eftir stuðning Musks við AfD. Með frásögninni var mynd sem sýndi Musk ávarpa fund AfD á risaskjá.

Þegar á reyndi höfnuðu ritskoðaðar Facebook að birta og afmáðu það án frekari skýringa. Hér er þetta birt í nafni málfrelsis og verður spennandi að sjá hvort það fái nú náð fyrir augum ritskoðunarinnar en önnur mynd fylgir þessum texta en á vardberg.is.

Gettyimages-1177714952-1-5737147cb62d505dd3f5b3400a4d1ffdb6bcd3a2

„Sala á Tesla-bílum hefur hrunið í Þýskalandi eftir að milljarðamæringurinn Elon Musk, Tesla-framleiðandi og stuðningsmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hóf bein afskipti af kosningabaráttunni í landinu. Þá hefur einnig orðið sölusamdráttur í Frakklandi og Bretlandi.

Bílgreinasamband Þýskalands segir að 59% færri Teslur hafi selst í Þýskalandi í janúar 2025 miðað við janúar 2024.

Eina rafbílasmiðja Teslu í Evrópu er í Þýskalandi og skráði hún sölu á 1.277 nýjum bílum í landinu í janúar 2025. Hefur salan ekki verið minni síðan í júlí 2021.

Samdrátturinn verður þótt almennt hafi sala á rafmagnsbílum í Þýskalandi aukist um 54%, markaðshlutdeild Teslu hefur minnkað úr 14% í 4%.

Sérfræðingar segja að ýmsar ástæður geti verið fyrir minni sölu á Teslum.

Fyrst eru nefnd afskipti Musks af þýskum stjórnmálum fyrir þingkosningarnar 23. febrúar. Hann styður opinberlega hægri jaðarflokkinn Alternative für Deutschland (AfD).

Flokkurinn berst fyrir fjölda brottvísana innflytjenda frá Þýskalandi, er gagnrýnin á aðildina að ESB og mildur í garð Rússa.

Elon Musk birtist óvænt á tjaldi á viðburði sem AfD skipulagði í janúar. Hann ávarpaði viðstadda og sagði:

„Það er gott að vera hrifinn af þýskri menningu, þýskum gildum og ekki tapa áttum í einhverri fjölmenningu sem útþynnir allt. Of mikil athygli beinist að gamalli sekt og við verðum að leyfa henni að hvíla í fortíðinni. Ekki á að yfirfæra syndir foreldra á börn þeirra því síður ef afar þeirra og ömmur áttu hlut að máli.“

Þá ræddi Musk einnig við Alice Weidel, leiðtoga AfD, á miðli sínum X.

Sérfræðingar segja að pólitísk afskipti Musks séu ekki endilega eina skýringin á minnkandi sölu á Teslum. Hún kunni einnig að skýrast af bið eftir að Y-gerð Teslu birtist á markaðnum nú á fyrri hluta ársins.

Þá kunni að hafa skort íhluti til framleiðslunnar eftir að gert var söluátak á Teslum í lok 2024.

Sölusamdráttur á Teslu var 63% í Frakklandi og 12% í Bretlandi í janúar 2025.“