Reynir á verkstjórn Kristrúnar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra situr uppi með þrjú brýn úrlausnarefni sem komið hafa á hennar borð frá og með miðvikudeginum 3. desember.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra situr uppi með þrjú brýn úrlausnarefni sem komið hafa á hennar borð frá og með miðvikudeginum 3. desember. Þau eru:
- 1. Frumhlaup Guðmundar Inga Kristinssonar mennta- og barnmálaráðherra sem ákvað að auglýsa stöðu skólameistara Borgarholtsskóla án þess að hafa til þess hlutlægt tilefni.
- 2. Atvik í sal alþingis: Blótsyrði og svívirðingar Þórunnar Sveinbjarnardóttur forseta alþingis í garð þingmanna.
- 3. Hitafundur um jarðgöng á Seyðisfirði á vegum Viðreisnar með þátttöku utanríkisráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, sem benti á Flokk fólksins sem óvin Fjarðarheiðarganga.
Hvert þessara mála er því marki brennt að aðeins forsætisráðherra getur lagað vandræðin sem af þeim leiða, sjái viðkomandi stjórnmálamenn ekki sjálfir að þeim beri að víkja vegna eigin frumhlaups.
Margoft hefur komið í ljós að Guðmundi Inga er annað betur lagið en að fara með stjórn ráðuneytis sem ráðherra. Á honum hvílir einfaldlega verkefni sem er honum ofviða. Það bætir ekki hlut hans vegna máls skólameistarans í Borgarholtsskóla að nú verði þeirri reglu beitt af menntamálaráðuneytinu að auglýsa allar skólameistarastöður þegar fimm ára skipunartíma þeirra sem þær sitja lýkur. Til þess pólitíska hálmstrás er augljóslega gripið af aðstoðarmanni ráðherrans, Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrrv. varaformanni Samfylkingarinnar. Kristrún setti hann til höfuðs Guðmundi Inga og forsætisráðherra telur það nú Guðmundi Inga helst til bjargar að starfsöryggi allra skólameistara sé sett í uppnám – um það snerust ræður hennar á alþingi fimmtudaginn 4. desember.
Vafasamt er, miðað við framgöngu Þórunnar Sveinbjarnardóttur í embætti forseta alþingis, að unnt sé að treysta dómgreind hennar þegar rætt er um misheppnaða framgöngu hennar í embættinu. Henni dettur örugglega ekki í hug að segja af sér. Það er þá hlutverk forsætisráðherra sem leiðtoga stjórnarmeirihlutans á þingi að gera Þórunni grein fyrir að hún njóti ekki lengur trausts sem þingforseti.
Fjármálaráðherra, forsætisráðherra og innviðaráðherra kynna samgönguáætlun 3. des. 2025 (mynd: vefsíða stjórnarráðsins).
Miðvikudaginn 3. desember boðuðu Kristrún Frostadóttir, Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra til blaðamannafundar og kynntu nýja samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 undir yfirskriftinni Ræsum vélarnar. Meginmarkmið áætlunarinnar voru sögð vera að laga vegi, hefja stórframkvæmdir og byrja aftur að bora jarðgöng á Íslandi.
Til þess að gera þessi markmið að veruleika kynnti ríkisstjórnin ákvarðanir sem vörðuðu meðal annars fjármögnun og forgangsröðun verkefna.
Á Seyðisfirði og víðar töldu menn það alvarleg svik að horfið væri frá Fjarðarheiðargöngum en ráðherrar blésu á þá gagnrýni, öll rök mæltu með að setja Fljótagöng frá Siglufirði í forgang.
Sunnudaginn 7. desember brást Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra úthaldið. Hún boðaði til fundar á Seyðisfirði og sagði Flokk fólksins sökudólginn í svikamálinu. Undir heilbrigðri verkstjórn hefði slíkur vingull vikið úr ríkisstjórn.