15.4.2017 12:02

Reykvíkingar fari að fordæmi Hafnfirðinga og Dalvíkinga

Hér eru nefnd tvö sveitarfélög sem hafa rétt úr kútnum fjárhagslega eftir að forystu Samfylkingarinnar í þeim var hafnað. Reykvíkingar hafa tækifæri til að feta í fótspor þeirra eftir rúmt ár. Það er ekki eftir neinu að bíða að hefja markvissan undirbúning til að áform um slík umskipti takist í höfuðborginni.

Ætla mætti af orðum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra að skorturinn á lóðum og skuldasöfnun í Reykjavík sé annaðhvort náttúrulögmál eða afleiðing af óvild landsstjórnarinnar. Hvorugt er rétt þótt Dagur B. láti eins og húsnæðisvandinn leystist fengi hann að úthluta íbúðalóðum á landi ríkisins við Seljaveg eða í kringum Veðurstofuhúsið við Bústaðaveg.

Þar til borgaryfirvöld taka skipulagsákvarðanir á borð við þær sem teknar voru fum þremur áratugum við Grafarvog verður húsnæðisskortur í borginni af þeirra völdum.

Dogmatísk stjórn borgarinnar undir sérviskufullum vinstri meirihluta hefur leitt til skorts á lóðum og fjármunum. Haldið skal áfram á sömu braut með aðför að einkabílnum þar til bílastæði að verða jafnvel dýrmætari en aðrir auðir blettir. Þá hefur verið skipulögð aðför að Airbnb íbúðum í von um að hún minnki húsnæðisskortinn.

Til að átta sig á að vandann í Reykjavík má rekja til rangra stjórnarhátta skulu nefnd tvö dæmi.

Hafnarfjörður

Skoðanabræður Dags B. í Samfylkingunni og vinstra megin við hana hafa löngum farið með stjórn Hafnarfjarðarbæjar. Undir lok stjórnartíðar þeirra var bærinn í fjárhagslegri gjörgæslu. Eftir að meirihluti Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar tók við stjórnartaumunum að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2014 hafa orðið algjör umskipti í afkomu Hafnarfjarðarbæjar. Um þau mátti lesa í grein sem oddviti Sjálfstæðismanna Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, ritaði í Morgunblaðið fimmtudaginn 13. apríl.

Rósa Guðbjartsdóttir

Í upphafi greinarinnar segir Rósa:

„Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir 2016, sem nú hefur verið lagður fram, sýnir að algjör umskipti hafa orðið í rekstri bæjarins. Þetta eru afar jákvæðar fréttir fyrir Hafnfirðinga, og sýna að bærinn hefur á nokkrum árum farið úr því að vera í hópi verst reknu sveitarfélaga landsins í hóp þeirra best reknu.

Grunnurinn að þessum umskiptum hófst með vel undirbúnum, faglegum aðgerðum og breyttri forgangsröðun sem knúði fram miklar umbætur í rekstrinum. Allt var þetta gert án þess að skera niður þjónustu. Í ársuppgjöri bæjarins kemur fram að fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst verulega milli ára og að bærinn er kominn undir 150% skuldaviðmiðið sem sveitarfélögum er sett. Hafnarfjarðarbær mun því losna undan áralöngu íþyngjandi og niðurlægjandi eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Hafnarfjarðarbær verður því sjálfráða á nýjan leik og ætti það að vera markmið allra sem að stjórnun bæjarins koma að bæjarfélagið þurfi aldrei aftur að sæta þessu eftirliti.“

Hafnarfjarðarbær tók engin ný lán á árinu 2016 en slíkt hefur ekki gerst í bæjarfélaginu í um aldarfjórðung. Framkvæmdir bæjarins voru fjármagnaðar með eigin fé. Rekstur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar skilaði afgangi upp á 540 milljónir króna árið 2016 í stað 513 milljóna króna halla á árinu á undan.

Þetta er glæsilegur árangur hvernig sem á málið er litið – en þó sérstaklega þegar haft er í huga hve illa hefur farið fyrir fjárhag Reykjavíkurborgar á sama tíma og þessi gleðilegu umskipti hafa orðið í Hafnarfirði.

Dalvíkurbyggð

Miðvikudaginn 12. apríl birti bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar tilkynningu um fjárhagslega stöðu sína með vísan til reikninga fyrir árið 2016. Þar segir í upphafi:

„Aðlögun og aðhaldssemi í rekstri hefur nú skilað þeim árangri að samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta er hagnaður af rekstri sem nemur tæpum 250 milljónum sem er methagnaður hjá sveitarfélaginu. Er þetta um 125 milljónum betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlun með viðaukum. Tekjur samstæðunnar námu ríflega 2,1 milljarði og hafa aldrei verið hærri. Skatttekjur námu ríflega 1,4 milljarði og þar af framlag Jöfnunarsjóðs tæplega 483 milljónum. Þjónustutekjur voru um 691 milljón.“

Í lok tilkynningarinnar segir:

„Ýmislegt hefur áunnist á undanförnum árum og er þar helst að nefna að heildarskuldir hafa lækkað úr 105% skuldaviðmiði árið 2011 í 53,7% árið 2016.“

Bjarni Th. Bjarnason

Nýr bæjarstjóri, Bjarni Th. Bjarnason, tók við forystu í Dalvíkurbyggð eftir kosningar vorið 2014 þegar B-listi Framsóknar og óháðra og D-listi Sjálfstæðisfélags Dalvíkurbyggðar og óháðra mynduðu nýjan meirihluta í sveitarstjórninni. Samanlagt hafa listarnir fimm af sjö fulltrúum í sveitarstjórn. Fráfarandi bæjarstjóri var Svanfríður Jónasdóttir úr Samfylkingunni sem hafði fyrir kosningar boðað að hún muni láta af því starfi eftir kosningarnar.

Hér hafa verið nefnd tvö sveitarfélög sem hafa rétt úr kútnum fjárhagslega eftir að forystu Samfylkingarinnar í þeim var hafnað. Reykvíkingar hafa tækifæri til að feta í fótspor þeirra eftir rúmt ár. Það er ekki eftir neinu að bíða að hefja markvissan undirbúning til að áform um slík umskipti takist í höfuðborginni.