11.5.2018 10:27

Reykjavík: villta vinstrið eða hægri stöðugleiki

„Núverandi meirihluti ber ábyrgð á lausatökum í rekstri borgarinnar, sem hefur skilað sér í slæmri skuldastöðu og skattheimtu í hæstu hæðum, og miklum húsnæðisskorti.“

Hörður Ægisson skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag (11. maí) og segir:

„Reykjavíkurborg er með næstverstu fjárhagsstöðuna af tólf stærstu sveitarfélögunum, samkvæmt greiningu SA [Samtaka atvinnulífsins]. Þar munar mestu um slæma skuldastöðu borgarinnar en sem hlutfall af tekjum eru skuldirnar 169 prósent – aðeins Reykjanesbær er með verra skuldahlutfall – og í krónum talið hafa þær aukist um 35 milljarða á síðustu fjórum árum. Skuldir á hvern íbúa eru rúmlega 2,4 milljónir. Með hliðsjón af lélegum rekstri Reykjavíkurborgar ætti ekki að koma á óvart að íbúarnir búa við hlutfallslega hæstu álögurnar en um 10,9 prósent af tekjum þeirra renna til sveitarfélagsins á meðan hlutfallið er 7,4 prósent hjá íbúum á Seltjarnarnesi.[...]

Fjármál Reykjavíkurborgar og húsnæðismál eru ein stærstu málefni kosninganna. Þar ber flest að sama brunni. Núverandi meirihluti ber ábyrgð á lausatökum í rekstri borgarinnar, sem hefur skilað sér í slæmri skuldastöðu og skattheimtu í hæstu hæðum, og miklum húsnæðisskorti. Kjósendur hljóta að taka mið af þeim staðreyndum í komandi kosningum.“

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins ættu að leggja höfuðáherslu  á að koma staðreyndunum sem lýst er í þessum orðum Harðar til skila. Þær eru þungamiðja kosningabaráttunnar. Á alla mælikvarða hefur borginni verið illa stjórnað í átta ár.

„Ég og konan mín erum í miklum vandræðum því dóttir okkar fær hvergi leikskólapláss í Reykjavík,“ segir ungur faðir í samtali við Morgunblaðið í dag, en hann kýs að koma fram nafnlaust. Maðurinn segir þau hjónin mjög reið yfir „falsfréttum“ um leikskólamál Reykjavíkurborgar og vísar til gamalla og nýrra loforða meirihluta borgarstjórnar um næg leikskólapláss, sem höfð hafa verið eftir fulltrúum hans í fjölmiðlum.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna (VG) til borgarstjórnar ætla að starfa áfram saman eftir kosningarnar. Líf Magneudóttir, leiðtogi VG,  lýsir í samtali við Stundina 11. maí efasemdum um að Píratar séu samstarfshæfir, hún hafnar samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn en biðlar til Sósíalistaflokksins, öfgaflokksins sem er nýjasta afsprengi Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi handlangara auðmanna. Hann reyndi að halda Fréttatímanum á lífi með blekkingum og lenti síðan í útistöðum við starfsmenn blaðsins þegar það varð gjaldþrota og þeir fengu ekki laun.

Kostirnir eru skýrir í borgarstjórnarkosningunum: villta vinstrið eða stöðugleiki hægra megin við miðjuna.