16.3.2022 12:06

Reykjavík verður að virka

Kjarni málsins er að undir stjórn Dags B. Eggertssonar og liðsmanna hans er Reykjavík hætt að virka. Þjónustustigið minnkar en kostnaðurinn eykst.

 

Gísli Freyr Valdórsson, nýr ritstjóri ViðskiptaMoggans, viðskiptablaðs Morgunblaðsins, ræðir í dag (16. mars) við Baldvin Þorsteinsson, fráfarandi stjórnarformann Eimskips, um árangursríkar breytingarnar á skipa- og flutningafélaginu frá árinu 2018.

Breytingarnar á stefnu Eimskips á innan við fjórum árum frá því að Baldvin varð stjórnarformaður sýna hverju mætti t.d. breyta í Reykjavík á næsta kjörtímabili fengju sambærileg viðhorf og vinnubrögð að ráða í borgarstjórn.

Í samtalinu segir Baldvin velgengni Eimskips ekki mælda í fjölda skipa, fjölda siglingaleiða eða fjölda gáma heldur í því hversu hagkvæmir og arðsamir flutningarnir séu, aðhaldi í kostnaði, gæðum þjónustu við viðskiptavini og svo framvegis. Ekki sé unnt að gera allt fyrir alla en það sem gert sé beri að gera vel. Horfa verði á gæði þjónustunnar og bregðast við breyttum aðstæðum hverju sinni til að þau haldist. Stjórnendur verði að ráða tækjum og tólum til að þeir geti fylgt eftir stefnunni sem þeir setja. Nauðsynlegt sé að fyrir liggi greiningar og skýrslur til að auðvelda fólki að skilja hvert stefni og tryggja framgang á leiðinni sem stjórnendur mörkuðu.

275053265_401481851785452_3827606805102398033_nKjörorð Hildar Björnsdóttur um að það þurfi Reykjavík sem virkar hittir í mark.

Sé mælikvarða af þessum toga brugðið á átta ár Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra, kolfellur hann og meirihlutinn að baki honum á prófinu.

Raunar er sama hvert litið er, hvergi örlar á að bent sé á eitthvað í betra horfi nú en fyrir átta árum og snýr að þjónustu við borgarbúa. Þegar að er fundið líta stjórnendur borgarinnar ekki í eigin barm, þeir benda á einhvern annan. Að þeir skuli komast upp með þetta sýnir alvarlegan brest á leiðum til aðhalds. Öll tæki og tól til þess eru máttlaus eða máttvana. Meirihluti borgarstjórnar beitir hvað eftir annað valdi sínu til að hindra að meðferð mála sé á þann hátt að raunveruleg staða þeirra birtist. Meirihlutinn magnar upp fáfengileg aukaatriði sér til dýrðar en forðast það sem máli skiptir.

Vigdís Hauksdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur gert marga atlögu að vondum stjórnarháttum meirihlutans og mátt þola áreiti langt út yfir öll skynsamleg mörk. Hún sagði á FB-síðu sinni í vikunni:

„Jæja - búið er að ákveða að eyða 10 milljörðum í „stafræna umbreytingu“ Reykjavíkur og búið að ráða yfir 60 starfsmenn í verkefnið

Það vill ekki betur til en svo að vefur borgarinnar hefur m.o.m. legið niðri síðan

Það gerir okkur kjörnum fulltrúum afar erfitt fyrir í störfum okkar - finna fundi, gögn og tillögur - en á sama tíma er þetta mjög heppilegt fyrir borgarstjóra og meirihlutann - sem hafa yfir 10 upplýsingafulltrúa.“

Það er ekki að undra að Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skuli í sókn eftir oddvitasæti á lista flokksins nú berjast undir kjörorðinu: Við þurfum breytingar í borginni - Reykjavík sem virkar!

Kjarni málsins er að undir stjórn Dags B. Eggertssonar og liðsmanna hans er Reykjavík hætt að virka. Þjónustustigið minnkar en kostnaðurinn eykst. Upplýsingafulltrúar eru 11 talsins en upplýsingarnar eru ómarktækar af því að greiningin er röng. Blekkingablaður birtist í stað raunhæfra lausna.