25.2.2021 10:37

Réttarríkið truflar Eflingu

„Ljóst er að aðför Eflingar að Eldum rétt og tilefnislausar ásakanir hafa valdið fyrirtækinu miklu tjóni.“

Þegar forkólfar Sósíalistaflokks Íslands, Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, náðu völdum í Eflingu-stéttarfélagi með stuðning um 8% félagsmanna voru um 42 starfsmenn hjá Eflingu. Á fyrsta stjórnarári sínu losuðu þau sig við nærri þriðjung þessara starfsmanna. Síðan þurrkuðu þau út alla stjórnarmenn í félaginu við lok umboðs þeirra, sat aðeins einn eftir. Alls hröktu þau um 20 manns úr störfum fyrir félagið til að teysta völd sín og losa sig við allar gagnrýnisraddir. Þau létu ekki þar við sitja heldur ráku einnig fólk sem þau réðu sjálf þar á meðal yfirmann verkfallshers Eflingar. Sá var fenginn til Íslands sérstaklega frá Kanada til að stjórna verkfallsaðgerðum.

Allir sviðsstjórar Eflingar voru sviptir yfirmannsstöðum sínum nánast með einu pennastriki. Síðan hafa Sólveig Anna og Viðar lagst í víking til að fá stjórnendur einkafyrirtækja dæmda fyrir vonda meðferð á starfsfólki sínu.

„Ljóst er að aðför Eflingar að Eldum rétt og tilefnislausar ásakanir hafa valdið fyrirtækinu miklu tjóni og er eðlilegt að fyrirtækið skoði réttarstöðu sína gagnvart Eflingu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á vefsíðu Fréttablaðsins í dag (25. febrúar).

Tilefni þessara orða er að Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði 24. febrúar frá dómi kröfum fjögurra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf. (MIV) gegn Eldum rétt. Þá voru forsvarsmenn MIV einnig sýknaðir af kröfum starfsmannanna sem allir eru rúmenskir.

1143217Efling hefur sótt að fyrirtækinu Eldum rétt misserum saman og borið það þungum sakargiftum sem héraðsdómari hafnaði (mynd mbl.is Hari).

Sólveig Anna Jónsdóttir sagði í tilkynningu til fjölmiðla undir lok árs 2019:

„Eldum rétt nýttu sér bágindi verkafólks frá Austur-Evrópu í gegnum það sem ég tel réttast að kalla einhvers konar mansalshring, rekinn af alræmdum síbrotamönnum í starfsmannaleigubransanum.“

Halldór Benjamín segir dómarann telja ótvírætt að laun hafi verið í samræmi við kjarasamninga og greidd að fullu, löglegt hafi verið að draga frá launum útgjöld á borð við húsaleigu og flugfargjöld og að lýsing Eflingar á aðbúnaði starfsmanna hafi ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir málsins.

Eins og vænta mátti ætla Sólveig Anna og Viðar ekki að una þessum dómi enda einkennist málflutningur þeirra jafnan af því að allir sem andmæla þeim fari villir vega.

Þau deila við dómarann og segja hann fara „rangt með veigamikið efnisatriði“, gerðar séu „ríkar kröfur í dómnum um sönnunarábyrgð“ Rúmenana og að „í ljósi mikilla vankanta á umfjöllun Héraðsdóms um málið“ telji Efling „hann óviðunandi“. Er boðað að frávísunin verði kærð til landsréttar og sýknudóminum áfrýjað.

„Við ætlum að skoða þessa stöðu mjög vel og þessi barátta er bara rétt að byrja,“ segir Viðar Þorsteinsson í Fréttablaðinu.

Hótunartónninn í garð dómarans leynir sér ekki. Sumarið 2019 hóf Efling aðförina að Eldum rétt. Þá sagði Viðar Þorsteinsson við Morgunblaðið: „Það er hörmulegt að fyrirtækið haldi áfram þessum leik að skýla sér á bak við einhverja lagatæknilega fimleika.“ Hér gilda leikreglur lýðræðislegs réttarríkis þar til Sósíalistaflokkur Íslands nær völdum víðar en í Eflingu.