20.8.2025 10:10

Rektor tekur ekki samtalið

Nú þegar þetta er skrifað 20. ágúst 2025, réttum tveimur vikum eftir þöggunina í Þjóðminjasafninu, hefur Silja Bára ekki brugðist við fyrirspurnum blaðamanna vegna atviksins. 

Ísraelskur fræðimaður á sviði gervigreindar og lífeyrisskuldbindinga, hagfræðiprófessorinn Gil S. Epstein, átti að halda fyrirlestur fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins 6. ágúst 2025. Stóð Rannsóknastofnun um lífeyrismál, stofnun við Háskóla Íslands (HÍ), að viðburðinum undir stjórn Gylfa Zoëga hagfræðiprófessors við HÍ. Þá ruddist Ingólfur Gíslason lektor við HÍ ásamt öðrum inn í fyrirlestrasalinn með mótmælaspjöld. Eftir að fundarstjóri reyndi árangurslaust í 20 mínútur að fá frið til að halda fundinn fyrir öskrum Ingólfs og félaga ákvað Gylfi að slíta honum.

Frá því að þetta gerðist hafa margir orðið til þess að leita eftir viðbrögðum Silju Báru Ómarsdóttur sem tók við embætti rektors HÍ 30. júní. Í ræðu sem hún flutti í hátíðarsal háskólans við það tilefni sagði Silja Bára að í háskólum glímdu menn við „hugmyndafræðilegt ofbeldi“ sem fælist í því „að brjóta niður tjáningarfrelsi og akademískt frelsi með því að refsa og ógna fræðafólki“. Skýrt dæmi um slíkt niðurbrot á tjáningarfrelsinu er atburðurinn 6. ágúst undir forystu starfsmanns HÍ.

Í ræðu sinni sagði Silja Bára réttilega að Háskóli Íslands nyti mikils trausts meðal almennings. Taldi nýi rektorinn mikilvægt að viðhalda þessu trausti og það myndi gert með gagnsæju og hreinskiptu samtali við samfélagið. Þannig hefði skólinn verið leiðandi afl í íslensku samfélagi og hún myndi leggja höfuðáherslu á að hann yrði það áfram.

Screenshot-2025-08-20-at-10.06.10Silja Bára Ómarsdóttir flytur ræðu 30. júní 2025 þegar hún tók við embætti rektors Háskóla Íslands (mynd: HÍ).

Nú þegar þetta er skrifað 20. ágúst 2025, réttum tveimur vikum eftir þöggunina í Þjóðminjasafninu, hefur Silja Bára ekki brugðist við fyrirspurnum blaðamanna vegna atviksins. Telji nýkjörinn rektor það óviðkomandi Háskóla Íslands hefði hún átt að segja það strax. Þögnin bendir hins vegar til að hún líti á þetta sem málefni sem falli undir yfirstjórn skólans án þess að hún vilji skýra frá afstöðu sinni. Með þögn sinni dregur hún úr trausti í garð HÍ, hún tekur ekki þátt í „gagnsæju og hreinskiptu samtali við samfélagið“.

Finnur Ulf Dellsén, heimspekiprófessor við HÍ, tók til varna fyrir framgöngu Ingólfs Gíslasonar og félaga fyrst í færslu á Facebook, síðan í grein í vefblaðinu Vísi. Hann telur að „það sé ekki brot á akademísku frelsi fyrirlesara að fólk mótmæli honum kröftuglega, jafnvel þótt það verði til þess að fyrirlestrinum sé svo aflýst“. Í akademísku frelsi felist „ekki að fólk almennt þurfi að hlusta á fræðafólk þegar það tjáir sig, hafi þögn og sýni því sérstaka virðingu“.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor, svarar Finni kröftuglega í Morgunblaðinu í dag. Honum finnst hafi einsætt að Ingólfur og félagar úr starfsliði HÍ hafi brotið siðareglur skólans með framferði sínu í Þjóðminjasafninu 6. ágúst. Þeir hafi svipt fyrirlesara málfrelsi vegna þess hver ísralelski fræðimaðurinn, Gil S. Epstein er, ekki vegna þess hvað hann hefði að segja. Þetta óþol gegn skoðunum annarra sé „beinlínis ískyggilegt“.

Innan HÍ hafa fleiri starfsmenn en Finnur Ulf Dellsén lýst stuðningi við þöggunina í Þjóðminjasafninu. Þeim mun brýnna er að almenningur fái vitneskju um afstöðu nýs háskólarektors. Undarlegt er ef ekki hafi verið leitað álits Loga Einarssonar háskólaráðherra á þessu máli. Hefur hann ekki skoðun á því?