Reikningur vegna skógarhöggs
Stóra spurningin er hvaða skoðun Inga Sæland hefur á uppgjörinu. Henni hefur gengið vel að innheimta fé frá fjármálaráðherra Viðreisnar.
Skógarhögginu er að ljúka í Öskjuhlíð. Til þess var stofnað vegna þess að tré lokuðu flugi að austur/vestur braut Reykjavíkurflugvallar. Samgöngustofa krafðist þess að skógurinn yrði grisjaður og lokaði flugbrautinni af því að það var ekki gert.
Nú í mars samþykkti meirihluti í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar og síðan einnig meirihluti borgarráðs að tré skyldu felld að kröfu Samgöngustofu. Af lögum má ráða að þegar svo er komið sé skógarhöggið á kostnað þess sem gerst hefur brotlegur með því að skerða flugöryggi.
Grisjaða svæðið við flugbrautina í Öskjuhlíð (mynd: ISAVIA).
Í bókunum meirihlutans í stofnunum borgarinnar var tekið fram að ríkið ætti að greiða kostnaðinn við að opna flugvöllinn að nýju með fækkun trjáa í Öskjuhlíðinni. Meirihlutann mynda fulltrúar fimm flokka, þar á meðal Flokks fólksins.
Í Morgunblaðinu er spurningin um greiðslu þessa kostnaðar lögð fyrir Eyjólf Ármannsson, innviðaráðherra Flokks fólksins. Hann er afdráttarlaus í svari sínu:
„Ég tel rétt að borgin borgi þennan kostnað. Öskjuhlíðin og trén eru eign Reykjavíkurborgar og því ber borginni að sjá um trjáfellingarnar þar sem málið varðar þjóðaröryggi, þar sem er starfsemi flugvallarins. Vandinn sem af þessu hefur stafað er sá að Reykjavíkurborg hefur ekki gætt að því að trén vaxi ekki upp í hindrunarflötinn.“
Blaðið ber málið líka undir sósíalistann í borgarmeirihlutanum, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, forseta borgarstjórnar. Hún segir:
„Við teljum réttast að ríkið standi straum af kostnaði vegna trjáfellinganna og ég tel réttast að taka samtal um þetta.“
Óljóst er við hvern á að „taka samtalið“. Líklega gerir Sanna Magdalena ráð fyrir að borgarstjóri ræði við samflokkskonu sína, forsætisráðherrann, til að hún gefi fyrirmæli um greiðslu þessa kostnaðar úr ríkissjóði.
Nú er borgarfulltrúi Viðreisnar ekki lengur í meirihluta borgarstjórnar svo að líklega verður ekki flokkslegur þrýstingur úr þeirri átt á fjármálaráðherra Viðreisnar um að hann leggi út fé fyrir grisjuninni – þó er aldrei að vita.
Helga Þórðardóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, tryggði úrslitaatkvæðið til að meirihluti myndaðist á dögunum í borgarstjórninni. Hún tók u-beygju í afstöðu sinni til vinstri flokkanna þegar hún gekk til liðs við þá að fyrirmælum Ingu Sæland.
Áður en Helga myndaði meirihlutann ritaði hún grein í Vísi 7. febrúar og varaði við lokun flugvallarins. Hún sagði: „Hik hefur verið hjá borgaryfirvöldum að sinna þessari skyldu sinni [skógarhögginu] og þess vegna er fyrrnefndum flugbrautum lokað.“ Varla hefði henni þá komið til hugar að ríkið ætti að greiða kostnaðinn vegna grisjunarinnar. Ef til vill kúvendir Helga og þrýstir á flokksbróðurinn Eyjólf til að fá hann til að mæla með því að ríkið borgi.
Stóra spurningin er hvaða skoðun Inga Sæland hefur á uppgjörinu. Henni hefur gengið vel að innheimta fé frá fjármálaráðherra Viðreisnar. Ef til vill tekur hún að sér að tuska Eyjólf til hlýðni og krækja í nokkra milljónatugi vegna skógarhöggs til að framlengja líf stjórna borgar og ríkis.