Reiðilestur í tilefni af forsíðumynd
Ólíklegt er að á ritstjórn Morgunblaðsins hafi menn valið Skálholtsmyndina á forsíðu kirkjunni til háðungar.
Nú er rétt vika frá því að mynd Árna Sæbergs, ljósmyndara Morgunblaðsins, af göngu pretláta til Skálholtsdómkirkju vegna biskupsvígslu birtist á forsíðu blaðsins. Myndin er listaverk sem bregður ljósi á hátíðleik þess sem þarna gerðist. Myndir úr dómkirkjunni sjálfri sýna að hún var þéttsetin.
Sumt sem hér gerist er stærra í sniðum eða hátíðlegra en öllum líkar og gagnrýnisraddir heyrast vegna alls sem yfirvöld taka sér fyrir hendur, einkum ef það gerist á stöðum sem sameina þjóðina vegna söguhelgi sinnar.
Þessa einstöku ljósmynd tók Árni Sæberg fyrir Morgunblaðið í Skálholti sunnudaginn 22. júlí og birtst hún á forsíðu blaðsins sunnudaginn 23. júlí. Á einni viku hefur myndin orðið að þjóðareign.
Skemmst er að minnast umræðna sem orðið hafa vegna þingfundarins sem haldinn var á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins. Gagnrýnendur segja: fundurinn var of dýr, almenningur sýndi honum ekki nægan áhuga, Pia Kjærsgaard átti ekki að flytja ræðu. Fleira má vafalaust nefna en þetta þrennt hefur borið hæst.
Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Valdimar H. Jóhannesson, fyrrv. blaðamann, undir fyrirsögninni: Yfirdrepið sveipað möttli með mítur á hausnum.
Mynd Árna Sæbergs er kveikjan að grein Valdimars og fer hann ekki í launkofa með skömm sína á „fáránleika þjóðkirkju nútímans“ sem hann segir langt leidda „í eigin upphafningu, sjálfsdekri, skilningsleysi á erindi sínu við nútímann og einangrun frá þjóðinni“ eins og myndin sýni.
Valdimar segir:
„Kirkjan virðist hafa valið sér það hlutskipti að vera sett til hliðar í lífi þjóðarinnar og heldur að hægt sé að hressa upp á dvínandi virðingu með prjáli, silki og purpura. Kirkjan er að kyrkja sjálfa sig með því að neita að taka þátt í þörfum nútímans. Hún er nánast ekki lengur til mikils gagns. Hér þarf að koma skýrt fram að þessi hörðu orð eiga ekki við alla þjóna kirkjunnar en sannarlega við þá sem hafa ráðið för. Meðal presta landsins eru nokkrir heiðursmenn. Enginn má við mörgum og þungum straumi meðalmennskunnar.“
Ólíklegt er að á ritstjórn Morgunblaðsins hafi menn valið Skálholtsmyndina á forsíðu kirkjunni til háðungar og hlýtur mörgum að koma á óvart að hún verði til þess að Valdimar felli þennan harða dóm yfir þjóðkirkjunni. Annað og meira en ljósmynd þarf til að dómurinn sé sannfærandi.
Sú spurning vaknar hvort myndin sé ekki einmitt tímabær og verðugt forsíðuefni vegna þess að hún ögrar „þungum straumi meðalmennskunar“, sýnir hollustu við gamlar hefðir og hátíðleika.