8.1.2019 12:06

Reiði Dags B. breytist í karlrembu

Reiði Dags B. birtist í því að mánudaginn 7. janúar að hann gerði lítið úr sjálfstæði Hildar í útvarps- og stjórnvarpsfréttum og lýsti henni sem strengjabrúðu harðlínuafla.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlaði að nota starfshóp sem borgarráð setti á fót með hann sem formann, Þórdísi Lóu Þórhalldsdóttur, formanni borgarráðs úr Viðreisn, og Hildi Björnsdóttur Sjálfstæðisflokki til að setja lok á braggamálið, binda enda á umræður um það enda væri það til meðferðar í starfshópi.

Hildur Björnsdóttir brást rétt við reiðiöldu sem reis þegar í ljós kom að Dagur B. ætlaði að leiða starfshópinn um braggamálið. Hún tilkynnti að hún sæti ekki í hópnum ef Dagur B. yrði þar. Þar með náðu þessi pólitísku áform borgarstjóra ekki fram að ganga. Hann verður vegna kröfu sinnar um setu í hópnum að glíma við braggamálið í borgarráði.

Reiði Dags B. birtist í því að mánudaginn 7. janúar að hann gerði lítið úr sjálfstæði Hildar í útvarps- og stjórnvarpsfréttum og lýsti henni sem strengjabrúðu harðlínuafla í baklandi sjálfstæðismanna í Reykjavík „sem vilja ekki neitt samstarf milli meirihluta og minnihluta,“ sagði Dagur B. og talaði af karlrembu niður til Hildar.

Safe_image.phpDagur B. Eggertsson í sjónvarpsfréttum 7. janúar 2019.

Í tilefni þessara orða borgarstjóra sagði Hildur á FB-síðu sinni 7. janúar:

„Í kvöldfréttum RÚV lét borgarstjóri að því liggja að mér væri stjórnað af einhverjum ímynduðum harðlínumönnum innan Sjálfstæðisflokksins. Það er óttalega klaufaleg kenning. Ég tek ekki við fyrirmælum frá neinum og læt almennt illa að stjórn. Ekki veit ég hvernig Samfylking kemur fram við sínar konur – kannski heldur margur mig sig – en hjá Sjálfstæðisflokki hafa konur sína eigin rödd “

Í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 mánudaginn 7. janúar sagði Dagur B. einnig:

„Ja, braggamálinu er lokið, framkvæmdum er lokið, óháðri úttekt er lokið.“

Þarna birtist enn ein afneitun borgastjóra í þessu máli. Umræðum um málið er ef til vill lokið milli meirihlutaflokkanna í borgarstjórn. VG, Viðreisn og Píratar fylkja sér á bak við Dag B. í þeirri trú að þar með sé þessu máli lokið.

Af þessu tilefni sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á FB-síðu sinni 7. janúar:

„Þegar Samfylkingarmenn eru komnir út í horn þá gera þeir lítið úr konum – líklega líkar þeim ekki sterkar konur. Dagur lét að því liggja í kvöldfréttum RÚV að Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi væri ekki sjálfstæð í verkum sínum heldur hefði hún lúffað fyrir ósýnilegum óvini Samfylkingarinnar sem hann finnur sífellt þegar gefur á bátinn í Sjálfstæðisflokknum eða Hádegismóum – það er aumkunarvert. [...] Braggamálið er rétt að byrja.“